141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[19:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Ég vil einkum ræða tvennt í þessu frumvarpi og í fyrri hlutanum ætla ég að koma inn á það atriði sem ég held að sé jákvætt við það. Það er að lögfesta á samstarfsnet opinberra háskóla. Það eru kannski ekki allir sem gera sér grein fyrir því hvað þetta samstarfsnet er, en það er sem sagt samstarfsnet opinberu háskólanna þar sem þeir leita eftir því að mynda aukið samstarf sín á milli. Þetta samstarfsnet hefur gefist mjög vel. Allir háskólarnir eru mjög ánægðir með það, ekki hvað síst litlu háskólarnir vítt og breitt um landið, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands. Samstarfsnetið gefur háskólunum tækifæri til þess að halda sjálfstæði sínu en um leið að auka og efla samstarf á milli háskólanna þannig að fram megi ná aukinni hagræðingu og svo framvegis.

Það hefur verið töluvert í umræðunni að sameina eigi alla opinberu háskólana í einn háskóla. Ég þekki málið ágætlega í tengslum við Landbúnaðarháskóla Íslands og þær umræður sem hafa verið meðal annars um sameiningu hans, bæði þegar var verið að tala um að sameina alla opinberu háskólana í einn háskóla, og eins síðar þegar komu upp umræður ekki fyrir svo löngu um að sameina ætti Landbúnaðarháskóla Íslands einan við Háskóla Íslands. Skýrslur sem voru unnar í kringum þær umræður hafa sýnt að ekki sé beinlínis fjárhagslegur ávinningur af þessum sameiningum og ljóst er að oft og tíðum á það sem haldið er fram ekki við rök að styðjast.

Aukið samstarf háskólanna er einvörðungu af hinu góða. Þá geta háskólarnir þróað samstarf sitt áfram á sínum eigin forsendum og notað styrkleika sína, en um leið styrkt sig út á við og inn á við í einstökum atriðum. Ég held að sú stefna sem hefur verið tekin í þessum málaflokki þegar kemur að samstarfsneti háskólanna sé mjög heppileg.

Ég held að hægt sé að efla samstarfsnetið mun meira og að það geti orðið til þess að dýpka og þétta samstarf háskólanna og geti hugsanlega tekið til fleiri þátta í samstarfi háskólanna.

Annað atriði í þessu frumvarpi hefur verið gagnrýnt töluvert, meðal annars í umsögnum frá Bændasamtökum Íslands sem menntamálaráðuneytið rekur á minnisblaði sem var sent til allsherjar- og menntamálanefndar. Þar er gagnrýnt að í rauninni er verið að gera ráð fyrir því að landbúnaðarháskólarnir falli undir sama lagaramma og aðrir opinberir háskólar. Við skulum láta það liggja milli hluta, en hins vegar hafa menn áhyggjur af starfsgreinabrautunum, meðal annars búfræðináminu á Hvanneyri og garðyrkjunáminu á Reykjum í Hveragerði.

Ég held að þessi gagnrýni sé mjög réttmæt. Það er mjög eðlilegt að taka tillit til þessara atriða. Maður sér á minnisblaði menntamálaráðuneytisins að þeir telja að verið sé að koma til móts við þetta og að undirstoðir þessara námsbrauta séu nægilega vel tryggðar í frumvarpinu sem fyrir liggur. Ég held að svo sé ekki og að við séum ekki að tryggja nægilega vel rannsóknir, tengsl atvinnugreinarinnar við menntastofnanirnar og undirstöður starfsnámsins, búfræðinnar og garðyrkjunámsins. Ég held að alveg óhætt sé að segja að mikil sóknarfæri eru fólgin í þessum atvinnugreinum og gríðarlega mikilvægt að þær og atvinnugreinar almennt séu í góðum tengslum við menntunina og að menntunin sé í góðum tengslum við atvinnulífið. Það eru gríðarleg sóknarfæri fólgin í menntun á sviði matvælaframleiðslu og landbúnaðar og í þessum atvinnugreinum. Mikilvægt er að við gerum ekkert til þess að veikja tengsl menntakerfisins við atvinnugreinarnar.

Til að mynda má minnast á að til ársins 2050 er gert ráð fyrir því að matvælaþörf heimsins muni aukast um 70%. Íbúum jarðar fjölgar um 200 þúsund hvern einasta dag. Íslendingar eiga mjög mikið ræktunarland og mikil sóknarfæri til aukinnar matvælaframleiðslu.

Nýverið höfum við séð fregnir af því að til standi að setja upp stórt garðyrkjuver eða garðyrkjubú á Suðurlandi í tengslum við Hellisheiðarvirkjun. Við höfum líka séð að aukinn áhugi margra aðila er á því að fara út í stórfellda kornrækt og stórfellda matvælaframleiðslu á öllum sviðum og nýta það landbúnaðarland sem við eigum. Því er gríðarlega mikilvægt að menntakerfið, einkum og sér í lagi garðyrkjubrautin að Reykjum og búfræðinámið á Hvanneyri, og það sem er í tengslum við þær námsbrautir, rannsóknir, menntun og annað, sé í góðum tengslum við atvinnulífið.

Ánægjulegt hefur verið að sjá til að mynda á undanförnum árum hvernig áhugi hefur verið að vaxa á nýjan leik í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða í matvælaframleiðslu heimsins, bæði hvað varðar eftirspurn og framleiðslu, hún er ekki að vaxa jafnhratt og mun ekki vaxa jafnhratt núna á 21. öldinni eins og hún gerði alla 20. öldina. Ánægjulegt hefur verið að sjá hver þróunin hefur verið varðandi nemendafjölda, til að mynda í búfræðinámi við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Ekki eru svo mörg ár síðan búfræðinámið var nánast að líða undir lok, ekki nema um 10 ár, vegna þess að það gekk svo erfiðlega að fá nemendur í það. Núna er gríðarleg ásókn í nám á sviði landbúnaðar. Menn hafa þurft að vísa frá miklum fjölda af nemendum, taka inn í fleiri en einn bekk og svo framvegis. Þetta er allt í fullu samræmi við það sem er að gerast.

Vissulega er mikilvægt fyrir þetta nám, eins og annað, að þróast og taka mið af þeim breytingum sem eru að verða á sviði þeirra atvinnugreina sem ætlunin er að mennta fólk til, bæði á sviði garðyrkju og landbúnaðar, vegna þeirra miklu breytinga sem eru fram undan. Þá er mikilvægt að þessi menntun taki breytingum samhliða. Til þess að hún geti þróast sem best er mjög mikilvægt að hún sé í góðum tengslum við atvinnugreinarnar sjálfar.

Ég held að með þessu frumvarpi sem við erum að ræða hérna og þeim breytingum hvað varðar landbúnaðarskólana sé alveg ljóst að niðurstaðan er sú að mikilvægt er að þær séu í tengslum við atvinnulífið. Þá er ég ekki að tala um samstarf opinberu háskólanna eða samstarfsnetið, heldur landbúnaðarháskólana sjálfa og tengsl atvinnulífsins. Ef þær eru ekki í góðum tengslum við atvinnulífið mun draga úr því að þessar námsgreinar geti tekið áframhaldandi breytingum. Þessa held ég að hefði þurft að taka tillit til og að nefndin hefði átt að gera meiri breytingar á málinu en raun ber vitni í breytingartillögum.

Ég vil þó segja aftur að sá þáttur sem snýr að samstarfsneti háskólanna er mjög jákvæður og er eitthvað sem við eigum að fagna. Hugsanlega mun þetta samstarfsnet verða til þess að einhverjir hinna opinberu háskóla sjái sér hagsmuni í því að sameina og þétta samstarfið enn meira, en við eigum að hverfa af þeirri braut að fyrir fram mótuð ákvörðun sé um að sameina alla háskólana í eina háskólastofnun og að síðan séu búnar til skýrslur og annað til þess að undirbyggja þær ákvarðanir, eins og við höfum séð í allt of miklum mæli. Samstarfsnetið tryggir að háskólarnir fari inn í samstarfið á sínum eigin forsendum með sjálfstæði sitt að leiðarljósi, en þó með það að markmiði að reyna að ná samlegðaráhrifum þar sem það er mögulegt. Ég held að þetta hafi gefist mjög vel og að við eigum að stefna áfram á þá braut. Það er sá þáttur í frumvarpinu sem maður getur með góðu móti stutt, en þegar kemur að öðrum ákvæðum sem snúa meðal annars að (Forseti hringir.) tengslum við atvinnulífið, búnaðarnáminu og fleiru, þá er það eitthvað sem verður að breytast, virðulegi forseti.