141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[20:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að geta loksins tekið til máls um frumvarp um opinbera háskóla. Málið snýr einkum að breytingum er varðar landbúnaðarháskólana. Hér virðast kannski ekki vera miklar breytingar sem er um að ræða en þær eru samt nokkrar.

Ýmislegt vekur svo sem athygli. Það er eitt sem ég mun koma að síðar í ræðu minni og kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins því að mér finnst að þar gæti ákveðins misskilnings eða í það minnsta er verið að henda á loft boltum sem ég held að sé mikilvægt að menn grípi ekki eins og þar er talað um.

Ég held að í upphafi sé rétt að undirstrika að Framsóknarflokkurinn lagði mikla áherslu á menntamál fyrir síðasta flokksþing sitt sem haldið var fyrir nokkrum vikum. Sérstakur hópur starfaði meðal annars í nokkra mánuði fyrir flokksþingið og fjallaði um menntamál og skilaði inn tillögum og greinargerð sem var síðan grunnur að samþykkt sem gerð var á flokksþinginu þar sem almennt var fjallað um menntamál, skólastigin og þess háttar.

Ég legg áherslu á að jafn réttur til náms er mjög mikilvægur þáttur. Það er jafnframt eðlilegt að ákveðnar kröfur séu gerðar á háskólastigi sem og annars staðar. Við höfum varað sérstaklega við því að háskólagjöld séu tekin í opinberum skólum, frekar eigi ríkið að hvetja til þess að allir geti sótt sér menntun þannig að jafnræði gildi.

Við höfum líka lagt mikla áherslu á, og vil ég ítreka það hér því að þetta frumvarp fjallar að nokkru um búnaðarskólana, að efla mjög tengsl atvinnulífs og náms. Að okkar mati eru ekkert nema kostir sem fylgja því þar sem unnt yrði að fullnægja þeim þörfum sem atvinnulífið gerir á hverjum tíma um starfsfólk. Við sáum það nýlega á fundi samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði sem heitir Málmur. Þar kom fram að eftirspurn er eftir tæknimenntuðu fólki og vöntun á því. Samstarf og samband atvinnulífs og háskólanna er því mjög mikilvægt.

Hér er fjallað um samstarfsnetið sem ég er mjög hlynntur. Það er mjög gott mál. Samstarfsnetið opnar háskólunum leið að samstarfi á mjög breiðum grunni og er mikilvægt að styrkja það og nota.

Þegar við horfum hins vegar á landbúnaðarskólana sérstaklega, Háskólann á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, vil ég koma því hér að að þessir skólar og ekki síst rannsóknarþáttur þeirra mun á næstu árum og áratugum skipta meira máli en oft áður, þótt auðvitað skipti skólarnir alltaf miklu máli. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er að í framtíðinni er ljóst að matvælaframleiðsla tengd vatni og landi verður ein af þeim þáttum, þeim atvinnugreinum sem hvað mest eftirspurn verður eftir í heiminum. Þar af leiðandi verða Íslendingar að vera á tánum, vera tilbúnir að nýta þau tækifæri sem felast í náttúruauðlindum landsins til þess að fylgja þeirri þróun eftir. Þar skipta þessir skólar að mínu viti miklu máli, ekki síst vegna rannsókna, nýsköpunar og þróunar. Séu menn sammála um þá framtíðarsýn að þarna séu tækifæri held ég að eðlilegt sé að þessir skólar verði efldir, þeim gefin tækifæri til þess að eflast á sviði rannsókna og nýsköpunar og stunda tilraunir og annað sem nauðsynlegt er til að fylgja tímanum eftir því sem fram líður.

Þetta frumvarp fjallar að meginstofni til um markmið frumvarpsins sem snýst um að allir opinberir háskólar búi við sama lagaumhverfi. Þar er lagt til, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum verði felld undir lög um opinbera háskóla og að lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, falli brott. Þá er jafnframt lagt til að samstarf opinberra háskóla, svonefnt háskólanet, verði lögfest.“

Það er mjög ánægjulegt að slík lögfesting verði því að háskólanetið hefur sýnt sig og mun án efa að mínu viti sanna sig enn betur í framtíðinni. Það skiptir máli varðandi gæði þess náms sem er verið að bjóða og upp á möguleika á samstarfi, rannsóknum og þess háttar að skólarnir geti unnið saman.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir hins vegar, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir auknum framlögum til Landbúnaðarháskólans vegna búnaðar- og starfsmenntanáms á framhaldsskólastigi sem ekki liggur fyrir áætlun um af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis á þessu stigi, en gera verður ráð fyrir að þau framlög rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins eins og hingað til.“

Ég velti fyrir mér hvort þarna sé í rauninni verði að segja að skólunum sem um ræðir verði áfram sniðinn býsna þröngur stakkur því að þannig hefur það verið.

Hér segir svo áfram, með leyfi forseta:

„Þá má gera ráð fyrir að kostnaður vegna áframhaldandi reksturs háskólanetsins auki útgjöld ríkissjóðs árlega um að minnsta kosti 50 millj. kr. eftir 2014 en verði samtals 600 millj. kr. fyrir árin 2011–2014.“

Þetta eru vissulega þó nokkuð háar upphæðir og miklir peningar, herra forseti, en engu að síður er mjög mikilvægt að háskólanetið sé öflugt og til staðar.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir liðinna ára hafi ekki verið gripið til heildstæðra hagræðingaraðgerða, svo sem sameiningar háskóla, og þannig dregið úr stjórnunarkostnaði og tvíverknaði.“

Þarna held ég, virðulegi forseti, að ráðuneytið sé á nokkrum villigötum því að það sýndi sig, m.a. þegar rætt var um sameiningu Háskólans á Bifröst við Háskólann í Reykjavík, að það var ekki um svo mikla og líklega enga fjárhagslega hagræðingu að ræða heldur fyrst og fremst stjórnunarlega ef einhver var. Ég held því að ráðuneytið sé aðeins á villigötum. Ég held líka að það sé mikilvægt fyrir landbúnaðarskólana, sem hafa sérhæft sig á ákveðnum sviðum, að hafa áfram nokkurt frelsi til að vinna að þeim greinum sem þeir hafa lagt áherslu á og að þeir fái til þess svigrúm og fjármagn.

Það er búið að liggja fyrir í alllangan tíma að margar háskólastofnanir okkar hefur vantað fjármuni, ekki síst þá háskóla sem hér um ræðir. Það er viðurkennt að svo sé og hefur verið í mjög langan tíma. Það hefur hins vegar staðið á því að þeir fjármunir skili sér og ljóst að ef ekki verður bætt þar úr — það hefur legið fyrir í nokkurn tíma — munu þessir skólar þurfa að skera niður námsgreinar, hætta ákveðnum námsgreinum og þess háttar sem ég held að gæti orðið byrjun á neikvæðum spíral fyrir skólana og það nám sem þeir bjóða upp á.

Það er eitt sem gjarnan gleymist í þessari umræðu um skólana. Ég tek skýrt fram að það á að sjálfsögðu að gera ríkar kröfur til þess að allir háskólar uppfylli ákveðin gæðaviðmið og skili ákveðnum árangri. Margir þessara skóla eru mjög mikilvægir fyrir byggðarlögin þar sem þeir starfa þó svo að það eitt og sér réttlæti kannski ekki tilvist þeirra. Það er líka mjög mikilvægt að skólarnir njóti menningar og sögu staðanna, ég nefni nú bara Hvanneyri og Hóla, það er að sjálfsögðu hægt að nefna Bifröst líka, og að þeim sé gefið tækifæri til að vaxa meðal annars á þeim forsendum og þróast.

Virðulegi forseti. Alltaf þegar við tölum um háskólanám, sama í hvaða formi við ræðum það eða hvenær, þarf að fylgja með að það ágæta fólk og sá ágæti hópur fólks sem fer í nám og leggur það á sig að ná sér í háskólagráðu þarf að sjálfsögðu að fá störf þegar námi lýkur. Þar finnst mér að við höfum aðeins látið undan síga síðastliðin ár. Að mínu viti hafa ekki orðið til nógu mörg störf á Íslandi vegna þess að það hefur vantað framtíðarsýn, vantað einhvern fókus á það hvernig og á hverju við ætlum að byggja þetta land til framtíðar.

Nú eru tækifærin nánast óendanleg. Vil ég þar nefna það sem ég minntist aðeins á hér áðan, að eftirspurn verður eftir matvælum í heiminum á næstu árum og hreinu vatni og slíku sem gefur okkur gríðarleg tækifæri. Einnig held ég að mikilvægt sé að öll tækifæri til að þróa hér ræktun og annað fái líka notið sín. Á Íslandi er vitanlega mikið landrými og þó svo að fara verði varlega um náttúruna, að sjálfsögðu, í sambandi við hvað við nýtum og hvað ekki þá held ég að ekki sé um það deilt að það er svigrúm til þess að auka landrækt og matvælaframleiðslu í framhaldinu. Þetta er eitthvað sem við hljótum að vilja gera til framtíðar.

Það er ekki langt síðan haldinn var fyrirlestur þar sem hingað kom sérfræðingur, norskur minnir mig, og fjallaði um þróun og eftirspurn eftir matvælum í framtíðinni. Þar kom fram að eftirspurn eftir matvælum mundi aukast mjög hratt og eftirspurn eftir vatni að sjálfsögðu um leið, ekki bara mjólk, brauði og þess háttar. Vandinn er um leið sá að færri og færri framleiða matvæli. Bændur bregða búi og flytjast í borg, hvort sem það er í Suður-Evrópu, Asíu eða annars staðar, og þar af leiðandi verður það samkvæmt þessari spá hlutverk Norður-Evrópu, Norður-Ameríku og eins eða tveggja ríkja í Suður-Ameríku í kringum árið 2040 eða 2050 að framleiða matvæli sem duga til útflutnings, þ.e. ekki bara til neyslu heima fyrir. Þarna er tækifæri fyrir Ísland ef við höldum rétt á spöðunum, en að sjálfsögðu verðum við að gera það skynsamlega og fara ekki offari frekar en í öðru og láta þessa hluti vaxa svo að við ráðum við vöxtinn og getum nýtt landið skynsamlega, tæknina og annað.

Annað sem ég held að sé mjög mikilvægt í þessu öllu saman er að sú fræðsla og kennsla sem hefur verið tengd landbúnaðarnámi varðandi jarðrækt, uppgræðslu og umgengni um landið skiptir miklu máli. Ég held að þegar á hólminn er komið séu fáir betur til þess fallnir að hugsa um landið og hafa jafnvel mestu hagsmuni af því en þeir sem vinna akkúrat með það, sem eru bændur og þeir sem eru í atvinnutengdum búskap og framleiðslu á matvælum.

Allt þetta er eðlilegt að taka inn í myndina þegar við ræðum framtíð þeirra skóla sem stunda og bera jafnvel ábyrgð og þunga af slíkum rannsóknum og þeirri framtíðarsýn sem er í boði.

Það komu ekki mjög margar umsagnir við þetta frumvarp, en þó er hér fylgiskjal frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til allsherjar- og menntamálanefndar. Í því eru viðbrögð við umsögn Bændasamtaka Íslands en í henni segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að lög um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, falli brott. Ekki er gert ráð fyrir neinu formlegu utanumhaldi um búfræði og garðyrkjunám. Ráðherra er veitt heimild til Landbúnaðarháskóla Íslands að gera samning um nám á framhaldsskólastigi.“

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Ákvæðið fer gegn ályktun búnaðarþings 2011. Þar er meðal annars skorað á mennta- og menningarmálaráðherra að tryggja að starfsmenntanám verði eitt af lykilverkefnum skólans.“

Það skiptir einmitt miklu máli að starfsmenntanámið sé metið og það sé inni í þeim reiknilíkönum og áætlunum sem skólarnir vinna eftir og eru til þess gerðar að mæla hvað skólarnir eiga að fá mikið fé. Því er mikilvægt að starfsnámið sé metið til fulls og horft sé til þess við gerð þessara líkana.

Ráðuneytið svarar þessu ágætlega og er ljóst að skiptar skoðanir eru milli þessara hagsmunasamtaka og ráðuneytisins, en ráðuneytið reynir að eyða þessum áhyggjum sem það telur óþarfar.

Síðan er nefnt í umsögn Bændasamtakanna að í III. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir að fella brott rannsóknarsvið Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég velti fyrir mér af hverju það er gert, það er svo sem reynt að skýra það í frumvarpinu. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„… rannsóknarsvið var eitt af stefnuáherslum Bændasamtaka Íslands við sameiningu skólans árið 2005 til að tryggja áframhaldandi starf RALA, ef svo mætti orða. Sviðið hefur undanfarin ár ekki verið virkt innan LbhÍ þar sem skólinn starfar í raun eftir annarri sviðaskiptingu en hugsunin var á sínum tíma. Brottfall ákvæðisins gerir hins vegar atvinnugreininni erfiðara að hafa aðhald á skólanum á sviði rannsókna.“

Ég held í það minnsta, hver sem niðurstaðan verður og breytingin, að hvergi verði slegið af í rannsóknum í landbúnaði, rannsóknum tengdum búnaðarfræðslu og öllu er varðar landbúnað vegna þess sem ég hef áður nefnt í ræðu minni, að trúlega séu mestu tækifæri Íslands á sviði matvælaframleiðslu. Hvort sem það er sjávarútvegur, landbúnaður, útflutningur á vatni eða að nýta vatnið til matvælaframleiðslu þá höfum við alveg einstakt tækifæri sem við hljótum að vilja nýta.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp er hér til 2. umr. og er eitt af þeim málum sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt áherslu á að verði klárað. Frumvarpið er kannski til þess gert að samræma og er það að sjálfsögðu ágætt þó svo við höfum ákveðnar efasemdir varðandi hluta er snúa að búnaðarfræðslu, rannsóknum og öðru. Verði frumvarpið að lögum er verkefni framtíðarinnar að fara nánar yfir það og reyna að búa þannig um hnútana að hvergi verði slakað á og að sjálfsögðu er von okkar að svo verði.