141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

virðisaukaskattur.

639. mál
[21:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hér, en vil taka fram að þetta er í fyrsta lagi dæmi um samstöðu nefndarinnar og undirstrika mætti það oftar að í nefndum þingsins er oft mikil samstaða um mál. Til dæmis eru nokkuð mörg mál sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd flytur sameiginlega, en það er lítið talað um það.

Það þarf ekki að ræða um það hvað skattsvik hafa óskaplega skaðleg áhrif á atvinnulífið. Þau skekkja samkeppni því að heiðarleg fyrirtæki eiga erfitt með að standast samkeppni við fyrirtæki sem ekki borga skatta. Borið hefur á því að menn stofna hreinlega fyrirtæki og gera svo bara ekki neitt, skila ekki neinu inn, láta áætla á sig, setja sig á launagreiðendaskrá og ekkert gerist. Hið opinbera, skattyfirvöld, hefur afskaplega lítil úrræði til að taka á slíkum málum fyrr en eftir dúk og disk.

Hér er verið að skerpa á reglunum og stytta tímann í tvö uppgjörstímabil, sem er þá yfirleitt hálft ár með öllum frestum, en áður var tíminn tvö ár. Einnig er verið að skerpa á því að hægt sé að stöðva atvinnurekstur ef menn hafa ekki sinnt skyldum sínum. Þó er sá varnagli að menn skuli ekki beita þessu úrræði nema eftir að ítrekuðum tilmælum um úrbætur hefur ekki verið sinnt.

Það er lítið meira um þetta að segja nema þetta er liður í því að reyna að berjast gegn svokölluðu kennitöluflakki sem felst í því að menn stofna atvinnurekstur, reka hann svo um eitthvert árabil án þess að telja neitt fram, láta áætla á sig aftur og aftur, gera ekki neitt og borga ekki neitt. Svo fer reksturinn í þrot einhvern tíma eftir dúk og disk og þá stofna menn nýtt fyrirtæki og gera nákvæmlega sama þar. Svona gengur þetta aftur og aftur og önnur fyrirtæki keppa við þessa aðila sem ekki greiða staðgreiðslu af tekjum starfsmanna, borga ekki virðisaukaskatt eða yfirleitt nokkurn skapaðan hlut í opinberum gjöldum. Allt eru þetta hlutafélög með takmarkaða ábyrgð. Þetta er mein sem við verðum að ráðast á.

Vandinn er sá að það eru líka til heiðarleg gjaldþrot, þ.e. fyrirtæki sem verða undir í samkeppni eða einhverjar forsendur fyrir rekstrinum ganga ekki eftir o.s.frv. Vandinn er að halda þeim aðilum frá hinum og íþyngja ekki of mikið nýsköpun og öðrum slíkum rekstri sem á fullan rétt á sér þó að hann verði af eðlilegum ástæðum gjaldþrota.

Ég tel að þetta sé liður í því að auka aga í atvinnurekstri og að menn skili þeim gjöldum sem þeir hafa tekið af öðrum, þ.e. virðisaukaskatti, en það er einhver annar sem greiðir hann, það er ekki fyrirtækið sjálft, og staðgreiðslu af launum, en staðgreiðsla af launum sem tekin er af starfsmönnum eru peningar sem fyrirtækið á ekki. En ég endurtek að ég styð þetta frumvarp að fullu.