141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla. Þetta er gamall kunningi, frumvarp sem var upphaflega lagt fram á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Frumvarpið var lagt fram á ný á þessu þingi með breytingum sem ríma við þær breytingartillögur sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði til við meðferð frumvarpsins á 140. löggjafarþingi.

Þau lög sem við gerum hér tillögur um breytingar á voru fyrstu heildarlögin um fjölmiðla sem samþykkt voru í þinginu fyrr á þessu kjörtímabili, nánar tiltekið vorið 2011. Lagðar eru til nokkrar breytingar og viðbætur á þeim lögum í frumvarpinu. Þar eru kannski viðurhlutamestar þær breytingar sem eru lagðar til varðandi eignarhald fjölmiðla, en það var mjög umdeilt mál hér fyrr á tíð, fjölmiðlafrumvarpið sem lagt var fram í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og olli miklum deilum og kallaði á aðkomu forseta Íslands sem beitti málskotsréttinum í fyrsta sinn. Það tengdist þessu sama efni.

Nú er öldin önnur, ef svo má segja, því að fulltrúar stjórnmálaflokkanna náðu þverpólitískri samstöðu um þær tillögur sem lagðar eru til í frumvarpinu um eignarhald fjölmiðla. Þar er farin nokkuð önnur leið en lögð var til á sínum tíma og hefur verið í umræðunni svo sem síðar, þ.e. að opnað sé fyrir heimildir til Samkeppniseftirlitsins að grípa til aðgerða gegn aðstæðum sem koma í veg fyrir, takmarka eða hafa skaðleg áhrif á fjölræði og/eða fjölbreytni í fjölmiðlunum, almenningi til tjóns. Almennt má segja að þarna sé verið að fara inn með sambærilegar heimildir og Samkeppniseftirlitið fékk með nýjum samkeppnislögum fyrr á þessu kjörtímabili og eru reifaðar í smáatriðum í nefndarálitinu.

Ég vil sérstaklega hnykkja á því að gagnrýnt hefur verið í umfjöllun um þetta mál að kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sé óraunhæf og ekki sé eðlilegt að gera ráð fyrir því að því fylgi enginn viðbótarkostnaður ef Samkeppniseftirlitið þarf að grípa til aðgerða í samræmi við þau ákvæði um samkeppnismál sem koma fram í þessu frumvarpi. Meiri hlutinn tekur undir það og vil ég að það komi hér skýrt fram, þ.e. að við bendum á það í nefndarálitinu að hver rannsókn á fjölmiðlamarkaðnum kosti a.m.k. 60 millj. kr., samkvæmt mati Samkeppniseftirlitsins, og það er ljóst að á þessum mikilvæga markaði þarf að gera ráð fyrir því að slíkur kostnaður falli til.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingartillögur, flestar tæknilegs eðlis. Ég vil þó vekja athygli á breytingartillögu sem lýtur að skilgreiningum á hugtakinu „ábyrgðarmaður“ sem hefur þær afleiðingar að hugtakið „efnisstjóri“ er fellt brott í 7. tölulið 1. mgr. 2. gr. laganna. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að sömuleiðis þarf að gera breytingar á 24. gr. þar sem einnig er fjallað um efnisstjóra og leggur fram breytingartillögu þess efnis.

Ég vil vekja athygli á þeim kafla í nefndarálitinu sem fjallar um vernd barna gegn skaðlegu efni. Það eru ekki gerðar breytingar á lögunum hvað það varðar, en fram komu ýmsar gagnlegar ábendingar í umsögn fjölmiðlanefndar sem meiri hlutinn leggur til að gangi til heildarendurskoðunar á lögunum sem stendur fyrir dyrum. Í fjölmiðlalögum sem við samþykktum fyrir tæpum tveimur árum var kveðið á um að heimilt væri að endurskoða lögin að þremur árum liðnum. Sú endurskoðunarvinna er að hefjast núna í ráðuneytinu samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað sér.

Ég ætla að öðru leyti að vísa til nefndarálits meiri hlutans hvað varðar þetta mál. Það eru fimm hv. þingmenn sem skrifa undir þetta nefndarálit, Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, sá sem hér stendur, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Árni Þór Sigurðsson. Ég þakka nefndarmönnum fyrir ágætissamstarf um þetta mál.