141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[21:19]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessu máli var vísað til atvinnuveganefndar sem fjallaði um málið. Hún fjallaði reyndar um sambærilegt mál á 139. löggjafarþingi. Við það tilefni komst 1. minni hluti nefndarinnar að þeirri niðurstöðu að samþykkja bæri frumvarpið en fella jafnframt brott ákvæði 2. gr. þess þar sem hann taldi verulegar líkur á að innheimtuhagræði greinarinnar mundi hafa í för með sér að aðilum í sömu stöðu yrðu tryggð mismunandi réttindi og slík mismunun byggðist ekki á nægjanlega ítarlegum og málefnalegum rökum. Málið varð ekki afgreitt á 139. þingi.

Að þessu sinni hefur frumvarpið verið lagt fram með töluverðum breytingum. Þannig er 2. gr. þess nú ætlaður takmarkaður gildistími, þau réttindi sem frumvarpinu er ætlað að tryggja eru almenn, tryggt er að viljaafstaða manna liggi fyrir á grundvelli umboðs og tryggt er að gjaldanda sé heimilt að segja sig frá fyrirkomulaginu.

Eftir að nefndarálitinu hafði verið dreift og nefndin afgreitt málið til 2. umr. komu hins vegar fram ábendingar um að gera þyrfti tilteknar breytingar á frumvarpinu. Annars vegar kom það álit fram að gefa þyrfti lengri frest til aðlögunar að þeim breytingum sem frumvarpið hefði í för með sér. Í því sambandi var sérstaklega vísað til 5. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um brottfall laga um greiðslu vátryggingariðgjalda fiskiskipa, nr. 17/1976, með síðari breytingum. Hins vegar var bent á að í frumvarpinu væri lagt til að II. kafli laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, yrði felldur brott en ekki væri lögð til breyting á 16. gr. laganna þar sem m.a. er kveðið á um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um innheimtu samkvæmt II. kafla og yfirlit yfir greiðslumiðlun.

Atvinnuveganefnd ræddi framangreindar ábendingar. Mat hennar er að nauðsynlegt sé að bregðast við þeim. Af þeim sökum leggur nefndin annars vegar til breytingu á 4. gr. frumvarpsins þannig að frumvarpið fái lagagildi 1. júní 2013. Hins vegar leggur nefndin til þá breytingu á 16. gr. laganna að þar verði kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglur um framkvæmd laganna.

Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er grein fyrir í framhaldsnefndarálitinu.

Undir framhaldsnefndarálitið skrifa auk mín hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Undir fyrra nefndarálitið skrifa auk mín hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Logi Már Einarsson, Björn Valur Gíslason, Ólína Þorvarðardóttir, Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.