141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

verðbréfaviðskipti.

504. mál
[21:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég geri athugasemd við hversu stutt framsöguræðan er. Það kann að vera að í framtíðinni þurfi að leita lagaskýringa í framsöguræðu framsögumanns og hún sagði ekki neitt. Mér finnst ekki góður bragur á umræðunni.

Verið að draga úr íþyngjandi kröfum til félaga og fjármálafyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta eru EES-tilskipanir sem er verið að færa í lög á Íslandi og mér finnst vel þess virði að menn ræði nefndarálitið sem hefur komið fram þannig að hægt verði að græða eitthvað á umræðunni. Það er náttúrlega eins og margt annað, mikið gert í flýti og án þess að menn setji sig nægilega vel inn í hlutina.

Það var bent á í umræðu í nefndinni að orðin arðgreiðsla, úthlutun eða sem stendur til að úthluta séu ekki rétt í ljósi þess að í áðurnefndum tilskipunum er rætt um „dividens paid out“. Nefndin telur ekki ástæðu til að víkja frá skýru orðalagi íslenskrar þýðingar tilskipunarinnar og leggur til að orðunum verði breytt í útgreiddan arð, sem er það orðalag sem er notað. Þetta er eitt af þeim dæmum þar sem nefndin er að gera breytingar og mér finnst alveg þess virði að menn ræði það pínulítið betur við umræðuna.