141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

tekjuskattur.

670. mál
[21:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Maður er ekki vanur því að enginn framsögumaður sé fyrir frumvarpi að lögum við 2. umr., sérstaklega í máli eins og þessu. Þó svo að við séum að vinna hratt er nú alveg sjálfsagt að menn sýni þá virðingu að tala fyrir viðkomandi frumvarpi.

Hér er ekki um lítið mál að ræða, þetta snýr að því að við erum að ná tvenns konar markmiðum, annars vegar að halda hér sköttum af vaxtatekjum, sem eru til staðar núna, en samt sem áður að hafa þá þannig að ekki sé komið í veg fyrir erlenda fjármögnun íslenskra fyrirtækja. Þess vegna er það til komið hér að veitt er undanþága frá greiðslu tekjuskatts af vaxtatekjum sem afmarkast við skuldabréf fjármálafyrirtækja og orkufyrirtækja.

Þetta er nokkuð sem kemur hér inn núna vegna þess að við náðum ekki að klára þetta í flýtinum rétt fyrir jólin. Hv. nefnd hefur farið að ég tel nokkuð vel yfir frumvarpið með þeim aðilum sem best til þekkja og mér sýnist að það sé þannig úr garði gert að við eigum að geta klárað það sem lög frá Alþingi.

Markmiðin eru mjög skýr, þ.e. að sjá til þess að við fáum eðlilegar skatttekjur af vaxtatekjum hér á landi, en að við göngum samt sem áður ekki þannig fram að við komum í veg fyrir að ákveðin fyrirtæki, sem eru ekki mörg, fyrst og fremst fjármálafyrirtækin og orkufyrirtækin, geti fjármagnað sig ef svo ber undir á erlendum mörkuðum. Ég þarf ekki að fara yfir nauðsyn þess, virðulegi forseti.

Þess vegna er þetta frumvarp til komið og ég held að við séum búin að gera það þannig úr garði að við eigum að geta gengið frá því sem lögum frá Alþingi.