141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

tekjuskattur.

670. mál
[21:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að þetta mál var rætt mjög ítarlega í nefndinni, verulega ítarlega. Menn voru að reyna að finna lausn á því hvernig við getum hagað þessari skattlagningu þannig að innlend orkufyrirtæki gætu fengið lán í útlöndum (Gripið fram í: Og fjármálafyrirtæki.) og fjármálafyrirtæki og fleiri sem vildu fara út á erlenda markaði, án þess þó að hola skattstofninn eða að hleypa svokallaðri snjóhengju að einhverju leyti út með þessum hætti.

Mér finnst það eiginlega dálítil vanvirðing við starf nefndarinnar, sem náði mikilli samstöðu um málið, að hér skuli ekki vera neinn framsögumaður, enginn maður úr nefndinni til að mæla fyrir málinu. Ég geri athugasemd við það, frú forseti, að enginn framsögumaður sé fyrir þessu máli sem svona góð sátt náðist um. Þetta er nefnilega töluvert stórt mál, mjög stórt fyrir orkufyrirtæki landsins, fjármálafyrirtæki o.fl. og einnig fyrir þá sem hafa áhuga á að leysa vandamál tengd snjóhengjunni miklu.

Ég geri því ákveðnar athugasemdir við það, frú forseti, að hér sé enginn framsögumaður.