141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

tekjuskattur.

670. mál
[23:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum sem snerta afdráttarskatta af vöxtum. Hér er einfaldlega um það að ræða að nefndin hefur unnið lengi að því markmiði að ná fram eðlilegum skatttekjum af vöxtum án þess að koma í veg fyrir fjármögnun íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum, en það eru fyrst og fremst fjármálafyrirtæki og orkufyrirtæki sem eru að reyna að ná þeim markmiðum.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé gott dæmi um að hv. nefndarmenn hafi unnið vel saman og farið vel fyrir málin. Ég legg því til að við samþykkjum þetta mál.