141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[23:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að taka á þeim vanda sem stafar af lánsveðum og það er vel. Ég styð það. Hins vegar eru skrefin afskaplega fátækleg og lítil og einungis verið að leysa um 2% af þeim vanda sem um er að ræða fyrir utan að þessar greiðslur renna ekki til þess að greiða niður af lánunum heldur renna þær til skuldaranna og fara væntanlega til einhvers annars en að leysa vandann sem eru lánsveðin.

Þetta er mikill og stór vandi vegna þess að það er mjög erfitt að láta lífeyrissjóðina, sem flestir eiga þessi veð, borga. Sumir þeirra eru opinberir og standa ekki við skuldbindingar sínar með iðgjöldum en aðrir þurfa að mæta svona áföllum með því að skerða lífeyri eða hækka iðgjöld. Þessi mismunur gerir það að verkum að þetta er óleysanlegt vandamál frá hendi lífeyrissjóðanna.