141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[23:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Við sáum leið til þess að koma til móts við lánsveðshópinn vegna ársins 2012 og ákváðum að nýta hana. Það er leitt ef menn eru ekki tilbúnir að vera með okkur í þeirri vegferð, en áfram er unnið að varanlegri lausn. Það er algjörlega morgunljóst að ætlan þessarar ríkisstjórnar er að skilja vel við þennan hóp hvað það varðar. Við erum enn að vinna að varanlegri lausn en þessar lánsveðsvaxtabætur eru til að bæta það upp að þessi hópur, sem ekki gat farið í gegnum 110%-leiðina vegna stífni lífeyrissjóðanna, fái að minnsta kosti viðbótarvaxtabætur vegna aukinna greiðslna sem hann þurfti að greiða af lánum sínum vegna ársins 2012. Þetta gerum við og vonandi kemur þetta til móts við þennan hóp á meðan við erum að vinna að hinni varanlegu lausn.