141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[01:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir framsöguna. Ég verð að segja eins og er að ég á dálítið erfitt með að skilja þessa umsögn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd. Ég átta mig ekki alveg á því hvort þeir ætli að styðja málið. Mig langar til að fá úr því skorið hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, hvort Sjálfstæðisflokkurinn hyggst styðja málið. Fram kemur í nefndarálitinu að hann hyggst ekki leggjast gegn því, þ.e. hann ætlar ekki að beita sér fyrir því að það verði stöðvað, eins og hann hefur gert með fleiri mál hér í þinginu. Mun Sjálfstæðisflokkurinn og þingmenn hans styðja þetta mál?

Nefndarálitið ber allt þess merki að Sjálfstæðisflokknum sé illa við það, þ.e. að hann ætli ekki að leggjast gegn því en flokkurinn og þingmenn hans ætli tæplega að styðja það. Yfirbragð nefndarálitsins er allt með frekar neikvæðum brag. Verið er að hnýta í ívilnanirnar sem verið er að beita, þær eru gerðar tortryggilegar. Verið er að gera tortryggilegt að málið sé flutt af hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni, fyrrverandi formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Vitnað er í ræður ráðherra, þ.e. hæstv. ráðherra Katrínar Júlíusdóttur og sömuleiðis hæstv. ráðherra Össurar Skarphéðinssonar í þeim tilgangi að gera málið tortryggilegt.

Því langar mig til að spyrja hv. þingmann og þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, Illuga Gunnarsson, hvort skilja megi nefndarálit og ræðu hans áðan þannig að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki styðja málið en hann muni heldur ekki leggjast gegn því, þ.e. að hann muni ekki beita sér af sömu hörku og með mörg önnur mál í þinginu að stöðva það.