141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[01:44]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hélt ég mundi ekki upplifa þann dag eða nótt að hv. þingmenn Vinstri grænna kæmu hér og krefðu hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins um afstöðu þeirra í máli sem snýr að atvinnuuppbyggingu úti á landi eða bara hvar sem er á landinu og að þingmaður Sjálfstæðisflokksins skyldi ekki geta sagt það skýrum orðum. Ég veit vel að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi styðja málið og það er vel, en ég hefði viljað fá skýr svör. Nóg um það.

Ég óska íbúum í Þingeyjarsýslum til hamingju með að loksins sjái fyrir endann á því gríðarlega mikilvæga hagsmunamáli að koma af stað atvinnu sem byggist á orkufrekum iðnaði á því svæði sem verið hefur kalt í atvinnulegu tilliti í langan tíma. Sú barátta hefur kostað blóð, svita og tár, en hún hófst fyrir einhverjum áratugum síðan. Það má kannski segja að kaflaskil hafi orðið árið 1998 með samstarfi Þingeyinga og Eyfirðinga við stofnun Þeistareykja ehf. (Gripið fram í.) Það var virkilega gott að það samstarf náðist. Ástæðan fyrir því að menn fóru í það samstarf var að sporna við viðvarandi fólksfækkun og mikilli fækkun starfa á svæðinu. Þess vegna má í rauninni segja að öll sú andstaða sem uppbyggingin hefur vissulega þurft að sæta sé á margan hátt undarleg. Ég held að það sé sanngjarnt að þakka hæstv. efnahagsráðherra fyrir þátt hans í málinu núna á síðustu mánuðum.

Það eru nokkur atriði sem mig langar til þess að koma sérstaklega inn á. Árið 2002 gerðu þáverandi Fjárfestingarstofa iðnaðarráðuneytisins, Húsavíkurbær og atvinnuþróunarfélag Þingeyinga með sér samkomulag um frummat á staðsetningu orkufreks iðnaðar við Húsavík. Sú vinna leiddi í ljós að Bakki við Húsavík var talinn hagkvæmasti kosturinn. Verið hefur mikil samstaða og eining um það á öllu Norðurlandi að brýnast sé að byggja þar upp og að það muni styrkja allt svæðið í heild sinni.

Á grundvelli þessa frummats gengu iðnaðarráðuneytið, Húsavíkurbær og Alcoa frá sameiginlegri viljayfirlýsingu um uppbyggingu álvers á Bakka í maí 2006. Það var skýr krafa og vilji heimamanna að ganga til þessa samstarfs. Á grunni þess var sameiginleg viljayfirlýsing gerð. Árið 2007 var samstarfið eflt enn frekar með viljayfirlýsingu Alcoa, Norðurþings og iðnaðarráðuneytisins um áframhaldandi hagkvæmniathugun og vinnu við 3. áfanga verkefnisins í samstarfi við Landsvirkjun og Landsnets.

Mat á umhverfisáhrifum hófst í júní 2008 þegar Alcoa kynnti drög að tillögu að matsáætlun fyrir álver á Bakka við Húsavík. Því miður gerðist sá atburður í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að umhverfisráðherra þáverandi stjórnar úrskurðaði að framkvæmdir vegna Bakka skyldu háðar sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum. Það hægði á verkefninu um a.m.k. tvö ár. Í mínum huga var það ekkert annað en skemmdarverk á þeirri vinnu sem farið hafði fram þar á undan. Ég gagnrýndi harðlega að það mat skyldi hafa verið unnið. Ég hvatti til þess að það yrði kært, en heimamenn mátu það sem svo að það þýddi lítið, betra væri að halda áfram með verkefnið og reyna að vinna með þáverandi stjórnvöldum.

Það sem gerðist svo í kjölfarið var að í október 2008 rann út sameiginleg viljayfirlýsing milli Landsvirkjunar og Alcoa. Hún var ekki endurnýjuð. Engu að síður var haldið áfram með verkefnið. Verkfræðistofan HRV og Alcoa tilkynntu tillögu að matsáætlun vegna álvers á Bakka með framleiðslugetu allt að 346 þús. tonn á ári. Tveimur árum síðar, í nóvember 2010, birti Skipulagsstofnun álit sitt á mati á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka.

Hinn 10. febrúar 2009 héldu Alcoa, Landsvirkjun og Landsnet í samráði við fulltrúa Landverndar og sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum fyrsta fund í sjálfbærniverkefni, þ.e. samráðsverkefni vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Norðausturlandi, hliðstætt sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar vegna framkvæmda á Austurlandi. Í október 2009 rann út viljayfirlýsing ríkisstjórnar Íslands, Norðurþings og Alcoa.

Hér kemur að mikilvægu atriði: Núverandi ríkisstjórn hafnaði beiðni Alcoa um framlengingu. Ég veit að hún telur sér það örugglega til tekna, en ég vil vekja athygli á því að ég fékk iðulega þau svör frá þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra að það væri Alcoa sjálft sem ekki hefði lengur áhuga á verkefninu. Hér segir skýrum orðum að það hafi verið ríkisstjórnin sem hafnaði beiðni Alcoa um framlengingu. Það er mikilvægt að það komi fram vegna þess að öll þau svör sem komu frá þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra voru á þann veg að kenna fyrirtækinu um að hætt væri við, ekki ríkisstjórninni. Við bentum á að verkefnið, þetta eina verkefni, gæti skapað hagvöxt, ekki bara fyrir svæðið, sem er kalt í atvinnulegu tilliti, heldur fyrir allt landið. Það gæti skapað atvinnu á mjög erfiðum tímum. Kannski að það atriði eitt og sér hafi komið í veg fyrir þann hagvöxt sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri spáðu að hefði getað orðið hér á landi en ríkisstjórninni hefur mistekist að skapa.

Þrátt fyrir það og sem betur fer hélt undirbúningur áfram fyrir iðnaðaruppbyggingu á Bakka. Í október 2009 var undirrituð viljayfirlýsing milli iðnaðarráðuneytisins fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Norðurþings. Þar var ákveðið að leita að nýjum áhugaverðum fjárfestum og var ákveðið að útvíkka viðræður um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í Þingeyjarsýslum. Við þá vinnu komu fleiri að borðinu, hafa viðræður m.a. staðið yfir við þrjá líklega iðnaðarfjárfesta um uppbyggingu á Bakka.

Hér erum við að ganga frá ívilnunum til fyrirtækisins PCC, þýsks fyrirtækis sem hefur í hyggju að byggja kísilmálmverksmiðju með allt að 33 þús. tonna framleiðslugetu á ári. Það er gott og ég styð heils hugar að það verði einnig samhliða því að veita heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi verði veitt heimild til ráðherra til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, sem Alcoa ætlaði að fjármagna á sínum tíma og lá fyrir að yrði afar þungbært fyrir sveitarfélagið að ráðast í uppbyggingu á. Nú þegar búið verður að samþykkja þessi lög, þessar heimildir, skiptir öllu máli að viðræðum við Thorsil verði lokið og haldið verði áfram við ræðum við Saint-Gobain á árinu 2013. Það er bara byrjunin, virðulegi forseti.

Það kemur skýrt fram í frumvarpi til laga að stefnt er að áframhaldandi uppbyggingu og viðræðum við þessi fyrirtæki. Það sem verið er að gera núna er bara 1/3 af þeim framkvæmdum sem til þarf til þess að styðja við atvinnu og mannlíf á öllu Norðurlandi.

Ég hef gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að draga lappirnar í þessu máli ítrekað, en um leið fagna ég því að málið sé komið á dagskrá. Ég er afar ánægður með að samningar skyldu hafa náðst um að koma þessu máli sérstaklega á dagskrá.

Virðulegi forseti. Ég ítreka hamingjuóskir mína til allra þeirra sem barist hafa mjög lengi fyrir þessari uppbyggingu, sérstaklega til sveitarstjórnarmanna á Húsavík, bæjarstjóra, fjölmargra hagsmunaaðila, stærsta hluta allra íbúanna sem sýnt hafa gríðarlega samstöðu í málinu. Það er í rauninni sú samstaða og samstaða Eyfirðinga og Þingeyinga sem myndaðist á árinu 1998 sem mun gera þessa uppbyggingu að veruleika. Þetta er stórt skref áfram en ekki aftur á bak.