141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[02:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að óska íbúum í Þingeyjarsýslu til hamingju með að þetta sé komið hér á dagskrá og að sjálfsögðu landsmönnum öllum, því það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að við nýtum þær náttúruauðlindir sem við höfum til atvinnuuppbyggingar. Ég held að það sé ekki ofsagt að íbúar í Þingeyjarsýslum og á Norðausturlandi öllu hafi gengið í gegnum mikil svipugöng áður en þessi atvinnuuppbygging á sér stað.

Ég ætla að gera grein fyrir því að ég var ekki á umsögn sem var send frá fjárlaganefnd yfir til atvinnuveganefndar. Ég stóð ekki að henni en gerði hins vegar ekki athugasemd við að umsögnin færi til nefndarinnar. Ég mun gera sérstaklega grein fyrir hvernig staðið er að því á milli ráðuneyta á eftir því sem snýr að stjórnskipun landsins.

Merkilegt er að hlusta á hv. þingmenn Vinstri grænna gera athugasemdir og efast um stuðning til dæmis sjálfstæðismanna í þessu máli. Þá er ágætt að rifja upp þá aðför sem þingmenn bæði Samfylkingar og Vinstri grænna gerðu að heilbrigðisstofnuninni í Þingeyjarsýslu þegar þeir fóru fram með fjárlög og lögðu til að skorið yrði niður um 40% á heilbrigðisstofnuninni á Húsavík. Hvað hefði það þýtt fyrir samfélagið? Er ekki allt í lagi að rifja það aðeins upp? Hvar voru athugasemdirnar og fyrirvararnir sem voru gerðir í þingflokkunum? Hvar voru þeir? Þeir voru bara engir. Við sjáum kannski fyrir okkur þegar hv. þingmenn Vinstri grænna koma hingað og eru með hálfgerðan skæting út í þingmenn Sjálfstæðisflokksins að kannski hefði ekki þurft að fara í mikla uppbyggingu ef búið hefði verið að leggja byggðina í rúst. Þeim áformum var reyndar hrundið og það var auðvitað vel.

Ég vil rifja upp þegar menn voru borubrattir talandi um almennu löggjöfina sem var sett 2010. Það er ágætt að rifja upp það sem þá var sagt. Ég hef prentað út bæði frá hæstv. ráðherra, frá hv. þm. Skúla Helgasyni og hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni. Hvað sögðu þessir ágætu hv. þingmenn? Þeir sögðu: Nú er tími sérlausna liðinn. Nú er allt uppi á borðum, almenn löggjöf sem rúmar allt þetta sem við ætlum að fara í. Nú er ekkert svona eitthvað sérlög og fix og pix. Sá tími er liðinn. Það er auðvitað stefnuyfirlýsing þessarar ríkisstjórnar. Fyrsta verkefnið sem ratar inn er þessi atvinnuuppbygging hér og þá þarf að setja um það sérlög. Það er ágætt fyrir hv. þingmenn að rifja upp og kannski væri hollt fyrir þá að lesa yfir ræðurnar sínar sem þeir héldu þegar það mál var klárað.

Ég vil varpa þeim athugasemdum sem ég hef haft gagnvart þessum hlutum inn í umræðuna. Ég stóð ekki að umsögninni sem fór frá fjárlaganefnd yfir til atvinnuveganefndar. Fyrir því er mjög einföld ástæða. Ég er ekki á móti atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum eða á Norðausturlandi en ég staldra þó við það sem kemur fram og snýr að stjórnskipun landsins, þ.e. að veita hæstv. atvinnuvegaráðherra heimild til lánveitingar. Í mínum huga er 5. gr. fjárlaganna sem fjallar um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir mjög skýr. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilað að taka lán, endurlána, veita ríkisábyrgðir og fleira eftir því sem kveðið er á um í ákvæðum þessarar greinar“ — þ.e. 5. gr. fjárlaga.

Skýringarnar sem ég hef fengið á því af hverju þetta er gert eru að sérlögin sem hér um ræðir gangi einhvern veginn framar fjárlögunum og fjárreiðulögunum. Það getur vel verið að svo sé, en ég set stórt spurningarmerki við þennan hluta og það er ástæðan fyrir því að ég stóð ekki að umsögninni. Ég ætla ekki að fjalla hér um þær athugasemdir sem snúa að innanríkisráðuneytinu, en ég staldra við þetta og það er ástæðan fyrir því að ég stóð ekki að umsögninni.

Ég sé ekki þörfina á því að gera þetta svona, því á fjárlögum ársins 2013 er einungis reiknað með 100 millj. kr. fjárveitingu í verkefnið á árinu 2013. Það eru allar framkvæmdirnar sem eiga sér stað, undirbúningur verkefnisins. Auðvitað var ekkert að vanbúnaði að flytja tillögu inn í fjárlagagerðina fyrir árið 2014 um að veita heimild til fjármálaráðherra að veita víkjandi lán til hafnarinnar á Húsavík.

Þess vegna staldra ég við. Þetta er ákveðið prinsippmál af minni hálfu. Ég tel að þetta rúmist ekki innan fjárlaga og ég held líka að ef við færum að feta okkur inn á þessa braut gagnvart fleiri hlutum eða fleiri frumvörpum þá væri rosalega erfitt fyrir hv. fjárlaganefnd að fylgjast með og halda utan um fjárreiður ríkisins.

Þess vegna stend ég ekki að umsögninni milli nefnda. Þannig að það sé bara alveg klárt og klippt.

Ég er ekki með neinar fullyrðingar en ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherra skoði mjög vandlega það sem snýr að afslætti sem gefinn er á tryggingagjaldinu. Ég ætla ekki að efast um að það sé rétt sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, að menn hefðu áhyggjur af réttarstöðu launþeganna eða starfsmannanna. Þá greiða menn tryggingagjaldið á pappírunum en fá það endurgreitt þannig að þá dekki menn þann hluta málsins. Ég staldra ekki mikið við það.

Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir hæstv. ráðherra og þá sem fara með þessi mál inn í framtíðina að hafa í huga að þessi afsláttur á tryggingagjaldinu snýr fyrst og fremst að kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Þar sem hefur orðið uppbygging í stóriðju hafa byggst upp öflug fyrirtæki sem þjónusta viðkomandi verkefni, hvort sem það eru rafvirkjar, vélsmiðir eða trésmiðir og svo framvegis. Þetta fyrirtæki fer væntanlega inn í svipaðan feril og önnur fyrirtæki sem hafa verið að byggja sig upp í stóriðjunni, þar af leiðandi verður það ekki með trésmíðadeild, rafvirkjadeild og svo framvegis. Ég tel að mikilvægt sé að þetta verði skoðað við gerð samninganna og framkvæmdina.

Nú erum við í gjaldeyrishöftum eins og öllum er kunnugt um. Ég veit ekki hvort samningurinn sé þannig að það fyrirtæki sem hér um ræðir komi svokallaða fjárfestingarleið Seðlabankans inn í landið til þess að fjárfesta. Ef það gerist á meðan gjaldeyrishöftin eru tel ég víst að það gerist með þeim hætti. Þá verðum við að hugsa hvað mundi gerast ef gjaldeyrishöftunum yrði aflétt, eftir bara tvo mánuði eða þrjá. Fyrirtækið er eftir minni bestu vitund ekki búið að fjármagna sig, þannig að ef það nær að fjármagna sig eftir að gjaldeyrishöftum yrði aflétt er spurningin: Nægir þessi samningur sem hér um ræðir? Eru einhverjar efasemdir um það eða þarf eitthvað að skoða það? Ég veit það ekki. Ég held að mikilvægt sé að það komi fram í umræðunni.

Síðan tel ég líka mikilvægt að menn taki þá umræðu og mér finnst hafa gætt ákveðins misskilnings í því. Við fengum strax beiðni frá öðru fyrirtæki sem hyggur á sambærilega atvinnuuppbyggingu um að þær ívilnanir sem eru í þessum samningi mundu líka ganga til þess fyrirtækis. Það snýr að svokallaðri jafnræðisreglu. Ég held að við þurfum að taka þá umræðu. Komi sambærilegt fyrirtæki inn á svæðið á Bakka á þessu ári, næsta ári eða þarnæsta finnst mér borðleggjandi að það fyrirtæki gangi nánast inn í þennan samning sem hér er. Ég held að mjög erfitt væri að færa rök fyrir því að það mundi ekki gerast. Það getur vel verið að menn geti sagt að þarna sé verið að koma þessu verkefni af stað og því eigi frumkvöðlarnir eða frumbyggjarnir inn á svæðið að fá sérmeðferð, en ég tel að menn þurfi að ræða í botn hvernig þetta er.

Síðan eigum við eftir að fá úr skorið um hvort hér væri um ríkisstyrk að ræða eða víkjandi lán. Það tekur væntanlega hálft ár að fá úrskurðinn frá ESA um það, kom fram á fundi fjárlaganefndar. Fram kemur í útreikningum á rekstri hafnarinnar að verði ekki frekari atvinnuuppbygging getur höfnin ekki greitt þetta til baka. Við þurfum að átta okkur á því.

Mér finnst dálítið sláandi að þegar maður fer yfir nefndarálitið frá meiri hluta atvinnuveganefndar þá afgreiða einungis þrír af níu þingmönnum umsögnina frá hv. samgöngunefnd, þ.e. 1. minni hluti. Það er umhugsunarvert. Ég er ekki að gera það að einhverju aðalmáli í þessari umræðu, en það slær mig persónulega, ég viðurkenni það, í svona stóru og mikilvægu atvinnuuppbyggingarmáli. Það á alveg jafnt við um minn flokk og aðra flokka. Það er umhugsunarvert fyrir okkur öll.

Síðan vil ég gera aðeins að umtalsefni ákveðinn misskilning, á ekki að reyna að nota það orð til þess að vera penn svona síðustu klukkutímana sem maður starfar hérna? Hv. þingmenn ganga út frá því að þegar settir eru fjármunir út úr tómum ríkissjóði í einhver ákveðin verkefni muni það ekki hafa nein áhrif á önnur verkefni sem eru í pípunum. Mér finnst það einhvern veginn blasa við. Það kemur fram í umsögninni frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur á það ríka áherslu að tryggt verði að framkvæmdirnar valdi ekki töfum á gildandi samgönguáætlun, enda fyrst og fremst um að ræða staðbundna styrkingu innviða vegna atvinnuátaks á svæðinu.“

Þetta finnst mér vera ákveðið skilningsleysi því það gefur augaleið að það er sami ríkissjóður sem eru teknir peningar út úr til þess að fara í þessa framkvæmdir eins og einhverjar aðrar. Mér finnst gæta ákveðins misskilnings hjá 1. minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar að alltaf þegar menn eyða milljörðum hér og milljörðum þar hafi það engin áhrif á eitthvað annað. Það er ekki þannig, virðulegi forseti.

Síðan vil ég ítreka að ég er mjög sáttur við að það skuli vera að fara af stað í atvinnuuppbyggingu á Bakka. Það er orðið löngu tímabært eftir alla þá þrautagöngu sem íbúar hafa búið við á Norðausturlandi. Ég er ekki að kenna núverandi stjórnvöldum um það, það má ekki skilja mig þannig, ég vil líta fram á veginn í því. Ástæðan fyrir því að ég er ekki á umsögn fjárlaganefndar til atvinnuveganefndar snýr fyrst og fremst að þeim atriðum sem ég rakti hér áðan.

Ég ætla ljúka ræðu minni þannig að mér finnst þetta frumvarp stangast á við ákveðna stjórnskipun í landinu, vegna þess að 5. gr. heimildin í fjárlögunum er einungis heimild til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til þess að veita víkjandi lán en ekki til annarra hæstv. ráðherra hverjir sem þeir eru. Þess vegna stend ég ekki að umsögninni. Ég tel að það sé varasöm braut að fara út á inn í framtíðina ef menn ætla að stíga þessi skref, þó svo skýringarnar séu þær að af því að þetta séu sérlög þá þurfi ekki að hafa áhyggjur af því sem gildir í fjárreiðulögunum. Ég er ekki algjörlega sannfærður um það, en fyrst og fremst sé ég ekki þörfina fyrir það vegna þess að gert er ráð fyrir því á árinu 2013 að 100 milljónir fari í undirbúning á verkefninu. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að mínu mati, að halda því prinsippi að þetta fari inn í fjárlög ársins 2014. Ekki neitt. Þess vegna stend ég ekki að umsögninni frá hv. fjárlaganefnd til atvinnuveganefndar um þetta mál.