141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[02:47]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrri spurninguna eru þeir samningar sem stjórnvöld gera alveg ótengdir því hvernig fyrirtækið síðan fjármagnar og kemur með sitt fjármagn inn í landið til uppbyggingarinnar. Af sjálfu leiðir að fyrirtæki sem er að undirbúa framkvæmdir af þessu tagi er sér vel meðvitað um möguleikann á að fara að einhverju leyti í gegnum fjárfestingarleiðina, enda er þetta væntanlega verkefni sem passar hvað best inn í hana af flestu sem við erum að tala hér um, því að hér er verið að fjárfesta til langs tíma í varanlegri starfsemi og þarf þar af leiðandi ekki að hafa áhyggjur af því að það fari annað.

Ég hef því miður ekki trú á því að okkur gangi svo greitt í afnámi gjaldeyrishaftanna að þau verði horfin innan þess tiltölulega skamma tíma sem við vonumst til að þetta verkefni verði endanlegt og ákveðið. Það er unnið að því hörðum höndum að klára síðustu lausu endana og upphefja fyrirvara á allra næstu mánuðum, þannig að vonandi liggur niðurstaðan fyrir og verkefnið er komið á og samningar orðnir bindandi innan sem allra fæstra mánaða héðan í frá. Góð og greið afgreiðsla þessara mála á þingi flýtir fyrir því.

Varðandi tryggingagjaldið er alveg ljóst að ívilnanirnar snúa að uppbyggingu og starfrækslu iðjuversins sjálfs í þann afmarkaða tíma sem leyft er, þ.e. samningarnir sem slíkir eru til 13 ára en ívilnunin getur aldrei staðið lengur en í tíu ár frá því að hún byrjar að telja. Það er bundið við iðjuverið sjálft og uppbygginguna og væntanlega þá starfsemi sem er innan ramma þessa rekstrar. Ég held að það sé alveg ljóst að ekki er hægt að teygja það út í einhverja óskylda starfsemi eða fara að stofna einhver dótturfélög sem nytu ívilnunar eða annað slíkt. Það er við félagið sjálft sem verður stofnað og stendur fyrir uppbyggingu og rekstri iðjuversins sem ívilnanirnar taka til.