141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[03:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm. Höskuld Þórhallsson í ljósi þessa nefndarálits þar sem gerð er athugasemd við alla þætti þessa máls, þ.e. að nægilegar upplýsingar liggja ekki fyrir, við þurfum að meta þetta af óháðum aðilum, efast er um forsendur sölu á eignum, fullyrt er að þetta verkefni muni hafa áhrif til samdráttar á hagkerfið í landinu og þenslu og það muni þýða fækkun starfsfólks o.s.frv. Þess vegna leggst hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gegn því að frumvarpið verði samþykkt.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hans: Hvað leggur hv. þingmaður til að þá verði gert varðandi byggingu, viðhald húsnæðis Landspítalans, byggingu nýs Landspítala, endurnýjun á búnaði o.s.frv. sem liggur algjörlega ljóst fyrir nema hann efist um það líka að sé komið að fótum fram fyrir löngu? Má þá vitna til fyrrum forustumanna Framsóknarflokksins í heilbrigðismálum, í velferðarmálum hér á Alþingi og í ríkisstjórn, sem hafa tekið þátt í því að leggja grunn að því verkefni sem við erum að reyna að komast að hér en ný forusta Framsóknarflokksins virðist nú snúast algjörlega gegn og ætli að beita sér fyrir því á þinginu að nái ekki fram að ganga.

Hvað hefur hv. þingmaður til málanna að leggja varðandi þjóðarspítalann í staðinn fyrir það sem hér er lagt til í okkar ágæta frumvarpi og fjárlaganefndarmenn standa að? Stendur allur þingflokkur Framsóknarflokksins að því að reyna að fella málið? Er afstaða þingflokks Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) á þann veg sem fram kemur í nefndaráliti hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar?