141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[03:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan segir í nefndaráliti meiri hlutans:

„Byggingarkostnaður er áætlaður um 44,3 milljarðar kr., áætlaður kostnaður við hönnun eftirlit og undirbúning er 4,3 milljarðar kr. og áætlað er að kaup nýrra tækja og búnaðar ásamt endurbyggingu eldra húsnæðis kosti 24,9 milljarða kr.“

Það helst í hendur að ekki er hægt að endurnýja búnað og tæki spítalans nema því fylgi nýtt og betra húsnæði.

Það sem ég hef áhyggjur af í nefndaráliti hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar þar sem segir, með leyfi forseta, í niðurlagi nefndarálitsins:

„Auk þess þarf að fara fram umræða um það hvernig skipan heilbrigðismála verði í framtíðinni.“

Hvaða sýn er það sem kemur fram í nefndarálitinu varðandi skipan heilbrigðismála í framtíðinni hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og þá væntanlega Framsóknarflokknum? Fjórðungur nefndarálitsins er beinar tilvitnanir í umsögn Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og Samtaka verslunar og þjónustu, þ.e. einkaaðilanna í greininni, þeirra sem komu fyrir fjárlaganefnd, alveg svellkaldir og töluðu gegn frumvarpinu vegna þess að það mundi draga máttinn úr einkafyrirtækjunum.

Er það sú framtíðarsýn sem Framsóknarflokkurinn og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sér um skipan heilbrigðismála í landinu? Hefur hv. þingmaður þá trú og Framsóknarflokkurinn sömuleiðis að einkavæðingin í heilbrigðiskerfinu muni þjóna landsbyggðinni sérstaklega vel? Er það framtíðarsýnin sem Framsóknarflokkurinn er að teikna hér upp með því að eyða stærstum hluta nefndarálitsins í beinar tilvitnanir einkaaðilanna sem lögðust gegn og leggjast gegn frumvarpinu vegna þess að þeir töldu og telja að það dragi máttinn úr einkasjúkrahúsum, einkastofum og einkalækningum í landinu? Er það afstaða Framsóknarflokksins til heilbrigðismála í landinu?