141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[03:12]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að ég taki dæmi úr þeim neikvæðu umsögnum sem bárust fjárlaganefnd þýðir það ekki að ég sé að tala fyrir einhvers konar einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Ég vil vekja athygli á því að það var þingflokkur hv. þingmanns sem er núna að leggja til að verkefni fari úr einkaframkvæmd yfir í opinbera. Hverjir voru það sem stóðu að því að þetta yrði í einkaframkvæmd? Voru það ekki núverandi stjórnvöld? Voru það ekki núverandi stjórnarflokkar?

Ég vek athygli á því að þó að lítill hluti þessa frumvarps fjalli um afstöðu heilbrigðisfyrirtækja þá er það nú einfaldlega þannig að ¾ af álitinu er í rauninni tilvitnun í álit sem kom frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem bent er á að sú hagræðing sem á að nást eigi ekki við rök að styðjast. Þeir benda líka á að afleiðingarnar fyrir ríkissjóð verða það miklar að fresta þurfi hugsanlega öðrum nauðsynlegum framkvæmdum sem núverandi ríkisstjórn hefur sett fram.

Ég hef heyrt hv. þingmann flytja ansi margar ræður um þann stórkostlega árangur sem ríkisstjórnin telur sig hafa náð í fjármálum ríkisins. Ég hef reyndar bent á að sá árangur sé hins vegar ekki til staðar. En það er alveg á hreinu að ef þetta verður að veruleika verður hann algjörlega fyrir bí. Sá jöfnuður sem við þurfum nauðsynlega að ná og aga á ríkisfjármálum verður ekki til staðar ef á að ráðast í einhverja stærstu framkvæmd Íslandssögunnar.

Ég stend við það, virðulegi forseti, að vinna þarf þetta verkefni öðruvísi. Það þarf að fara ofan í gögn af óháðum aðilum (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) og setja upp fleiri möguleika hvernig við ætlum að haga heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) til framtíðar. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði gert, vegna þess að það var (Forseti hringir.) Vinstri hreyfingin – grænt framboð, virðulegi forseti, sem lagði til þann gríðarlega niðurskurð sem átti sér stað (Forseti hringir.) á heilbrigðisstofnunum víðs vegar um landið og við ætlum að gera betur en hún á komandi kjörtímabili. (Gripið fram í: Að einkavæða heilbrigðiskerfið …)

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma.)