141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri athugasemd hv. þingmanns hef ég ekki áhyggjur af því að þingmenn, sem ber skylda til að vera við atkvæðagreiðslur, hirði ekki um að mæta í atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar. Það væri þá mjög undarleg forgangsröðun þingmanna og ég tel ekki ástæðu til að róa fyrir þá vík með sérstökum hætti, enda styrkir þá áskilnaður um 2/3 hluta þings minni hlutann við þær aðstæður.

Varðandi spurninguna um hvort þetta sé bráðabirgðaákvæði eða varanlegt ákvæði teljum við betra að þetta sé tímabundið og það sé gluggi hér til þess að gera breytingar með þessum hætti. Það verður að segjast eins og er að það er líka niðurstaða úr samtölum við fulltrúa stjórnarandstöðunnar, við höfum gengið mjög langt í því að mæta athugasemdum þeirra þrátt fyrir að það hafi gengið nokkuð treglega að fá tilstyrk stjórnarandstöðunnar til að styðja málið á móti.

Við höfum gert það sem við höfum talið þurfa til að ýta málinu áfram og fá það til afgreiðslu í þinginu þannig að hægt sé að greiða um það atkvæði.