141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara til að taka það alveg skýrt fram voru hvorki Sjálfstæðisflokkur né Framsóknarflokkur tilbúnir að samþykkja frumvarpið, hvorki eins og við formennirnir lögðum það fram upphaflega né eins og það kom frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar af leiðandi þurfti þessa hækkun þátttökuþröskuldar til gagnvart báðum flokkunum. Hvorugur vildi leyfa því að koma hér til atkvæða á öðrum forsendum.

Ég ætla ekki að fara að verja háa þátttökuþröskulda, ég er á móti þeim. Ég tek eftir því hins vegar að hv. þingmenn Hreyfingarinnar, sem hafa áður stutt þá, segjast núna vera orðnir á móti þeim og það er gott. (BirgJ: Það eru tveir mánuðir síðan …) Já, já, en það er mjög gott að heyra að hv. þingmenn Hreyfingarinnar eru búnir að skipta um skoðun og eru ekki lengur á því að 50% samþykkisþröskuldar séu skynsamleg leið eins og þingmennirnir voru á, (Gripið fram í.) eins og þingmennirnir töldu þegar þeir lögðu fram frumvarp þess efnis. (Gripið fram í.) Verk þeirra eru auðvitað óræk í því og menn geta ekkert hlaupist þannig frá eigin tillögugerð með því að afneita tillögum sem þeir flytja sjálfir í þinginu. Það er mjög gott ef þeir skipta um skoðun, það hefur komið fyrir þingmenn að skipta um skoðun. (Gripið fram í.) En það er einfaldlega þannig að þeir eru — (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni tóm til að flytja mál sitt.)

Þetta er greinilega mjög viðkvæmt hjá hv. þingmönnum Hreyfingarinnar sem vilja ekki standa við sitt eigið mál. Þeir lögðu sjálfir fram á Alþingi Íslendinga tillögu um 50% samþykkisþröskuld og eru að reyna að hlaupast frá því og (Gripið fram í.) kenna þeim um sem leggja fram tillögu um (Gripið fram í.) 40% samþykkisþröskuld sem niðurstöðu samningaumleitana og væna þá um svik. Það er mjög athyglisvert. (Gripið fram í.) Það sem liggur ljóst fyrir — mjög sérkennilegt að ég fái ekki meira en fimm sekúndur í einu til að svara án frammíkalla frá hv. þingmanni sem beindi hér til mín spurningum. (Gripið fram í.) Ég vildi líka fá að svara því til, svo það (Forseti hringir.) sé algerlega hafið yfir allan vafa, að niðurstaða okkar í þessu máli er bein afleiðing samninga, (Forseti hringir.) ekki okkar eigið val eins og það var val hv. þingmanna Hreyfingarinnar að skrifa upp á frumvarp um (Forseti hringir.) 50% samþykkisþröskuld. (Gripið fram í.)