141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þó að hún sé að draga sig til baka frá sameiginlegri tillögu okkar er mér það alveg að meinalausu.

Hún ræddi nokkuð um auðlindaákvæðið, ég get byrjað á því, að ef það yrði samþykkt núna mundi þjóðin greiða bindandi atkvæði um alla stjórnarskrána nema það ákvæði. Finnst henni eðlilegt að það ákvæði sé undanskilið því að þjóðin geti greitt um það bindandi atkvæði? Er einhver sérstök ástæða til þess að það ákvæði sé undanskilið?

Síðan ræddi hún mikið um þátttökuþröskulda og margt með sæmilegum rökum nema þegar hún sagði að í umdeildum málum, þar sem er segjum 80% kjörsókn, eða 70% eins og oft er, næðist ekki þessi þröskuldur. Þá spyr ég hv. þingmann: Vill hún að þjóðin kjósi um umdeild mál í stjórnarskránni sinni, þ.e. að um það bil helmingur þjóðarinnar keyri eitthvað ofan í kokið á hinum helmingnum?

Eiga að vera ákvæði í stjórnarskrá sem gilda fyrir hluta þjóðarinnar en ekki hana alla? Geta verið einhver ákvæði sem eru svo umdeild að þetta megi ekki?

Mér líst illa á þá hugsun yfirleitt af því að ég er hlynntur því að það sé sátt um tillögurnar bæði á Alþingi og eins hjá þjóðinni og að stjórnarskráin eigi að fela í sér ákvæði sem er sæmileg sátt um alls staðar.

Ef breytingar eru smávægilegar þarf ekkert að setja þær á, ekki fyrr en menn gera einhvern tíma almennilega breytingu. Menn geta munað eftir því. (Gripið fram í.)