141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:54]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það er alveg rétt hjá þingmanninum að ég hef ekki mikla trú á fulltrúalýðræðinu eins og það er ástundað hér. Mér finnst það gallað og ég hef meiri trú á beinu lýðræði. Fulltrúalýðræði er samt ekki slæm hugmynd og ég held að það sé að vissu leyti nauðsynlegt, a.m.k. með, en það sem gerir það gallað er að kjósendur hér á landi hafa engin verkfæri til að hafa áhrif á fulltrúa sína. Þeir hafa mjög lítil áhrif, en stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs lagar þetta. Það gefur kjósendum verkfæri til þess að hafa áhrif. Það er þjóðarfrumkvæði, 2% og 10% þjóðarinnar geta lagt fram þingmál, persónukjör og það að þjóðin getur líka haft í raun synjunarvald, getur kallað lög í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að fulltrúalýðræðið virki betur þegar kjósendur hafa verkfæri til þess að hafa áhrif.

Hvað varðar auðlindaákvæðið hefur það verið þétt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Efnislega er það eins og ég tel að áhrifin séu ekki önnur. Hvað varðar strandveiðar og ýmsa byggðapotta hefur það verið skoðað mjög vel í nefndinni og auðlindaákvæðið eins og það lítur út núna, eftir meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, kemur alls ekki í veg fyrir slíkt en hins vegar gæti ríkið þurft að vera milligönguaðili á markaði. (PHB: Kaupa kvótann.) Kaupa kvótann, en það er eins og ég veit að þingmaðurinn þekkir afskaplega vel hringrás peninga en kemur alls ekki í veg fyrir strandveiðar eða byggðakvóta.