141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson nefnir mikilvægi þess að það sé almenn sátt um ákvæði í nýrri stjórnarskrá. Hvað finnst hv. þingmanni um þá staðreynd að þjóðin skiptist til helminga þegar greitt var sérstaklega atkvæði um hvort þjóðkirkjan ætti að halda sér eða ekki? Hvernig mundi það horfa við þingmanninum ef slíkt ákvæði yrði til dæmis fellt?

Síðan langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann hafi kynnt sér mjög vel hversu hátt hlutfall þarf til þess að samþykkja nýja stjórnarskrá og hvort það sé möguleiki á að hann sé tilbúinn að vera með, í slíku góðu andrúmslofti, í þeirri vegferð að þessi nýja stjórnarskrá fari fyrir þjóðina í til dæmis næstu sveitarstjórnarkosningum, að þá verði kosið samhliða um þá stjórnarskrá sem var lögð til grundvallar og þjóðin spurð um og vildi með yfirgnæfandi meiri hluta þeirra sem mættu á kjörstað? Finnst þingmanninum ekki tilefni til þess að koma með yfirlýsingu um að það sé skynsamlegt að fara í þá vegferð?