141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi þjóðkirkjuna, þá horfði þetta þannig við mér allan tímann að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vildi láta á það reyna hvort rétt væri að fella ákvæðið um þjóðkirkjuna úr stjórnarskránni og það var sú hugmynd sem var felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það voru skiptar skoðanir en samt vildi vel rúmur meiri hluti halda ákvæðinu inni (Gripið fram í: 51%.) og þess vegna finnst mér það kannski einmitt lýsandi dæmi um mál sem menn eiga ekki að setja á dagskrá vegna þess að það dregur bara fram klofning hjá þjóðinni. Stjórnvöld sem eru sífellt að setja á dagskrá mál sem kljúfa þjóðina eru ekki líkleg til þess að verða mjög farsæl, kannski ekki heldur langlíf í stjórnarsetu sinni. Þannig hefur verið haldið á hverju málinu á fætur öðru af þessari ríkisstjórn.

Varðandi framhald málsins, eins og ég kom inn á í ræðu minni hef ég ekki séð ríka ástæðu eða þörf fyrir heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Ég vek athygli á því að í erindisbréfi til stjórnlagaráðsins sem komið var á fót voru nefndir sérstaklega tilteknir kaflar stjórnarskrárinnar sem ættu að koma til skoðunar. Ráðið tók það engu að síður upp hjá sjálfu sér að taka alla kafla stjórnarskrárinnar til endurskoðunar og skrifaði frumvarp að nýrri stjórnarskrá frá grunni. Það er ekki hægt að segja að ráðið hafi farið út fyrir umboð sitt en það var ekki sérstaklega verið að kalla eftir heildarendurskoðun.

Ég sé fyrir mér (Forseti hringir.) að það eigi að einbeita sér að og beina öllum kröftum í að skoða þá þætti (Forseti hringir.) sem hafa verið mest til umræðu á undanförnum árum. Ég nefni þar auðlindaákvæðið, þjóðaratkvæðagreiðslur, (Forseti hringir.) embætti forseta Íslands o.s.frv.