141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:16]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir að það eru mér jafnmikil vonbrigði og hv. þingmanni og mörgum öðrum að okkur skyldi ekki lánast að ljúka endurskoðunarferlinu öllu. Það var hins vegar ljóst fyrir nokkru að það gengi ekki eftir og er hægt að tína margt til sem veldur því, ógilding Hæstaréttar og margt fleira.

Nú snýst þetta um að tryggja að ferlið verði ekki fyrir bí, að það geti gengið áfram inn á næsta kjörtímabil. Ég ætla ekki að fara að skakast um það við þingmanninn hvort þátttökuþröskuldur formannanna sé réttur eða þátttökuþröskuldurinn úr Pétursfrumvarpinu sem þingmaðurinn sagði í dag að hún væri hætt að styðja. Menn verða að ná einhverri niðurstöðu um það og reyna að hefja sig yfir vonbrigðin og tryggja að ferlið geti haldið áfram og klárast. Það þýðir ekki að láta það að okkur skyldi ekki auðnast að klára þetta hafa önnur áhrif en þau að finna leiðir til að tryggja ferlinu áframhaldandi líf.

Ég held að það hefði verið mjög mikilsverður áfangi að ná að klára það ákvæði sem mest stuðnings naut í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október, sem var auðlindaákvæðið. Það má alltaf tína til að við hefðum líka átt að ná þessu og hinu. Þetta eru allt mjög mikilvæg ákvæði, þjóðaratkvæðagreiðslur, jöfnun atkvæðisréttar, persónukjör og allt hitt, en það er gríðarlega mikilvægt að ná að sameinast, eins og var verið að reyna að gera um auðlindaákvæðið, sem er pólitískasta ákvæðið í besta skilningi þess orðs, þannig að ævarandi eign þjóðarinnar á öllum auðlindum sem eru ekki í einkaeigu nú þegar verði stjórnarskrárbundin. Þetta er óhemju mikilvægt ákvæði. Ég skil vel að menn séu að stofna heilu hreyfingarnar utan um slíkt í sjálfu sér.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Hefði ekki verið vinnandi vegur að reyna að ná samstöðunni sem var hér á tímabili í sjónmáli, um að beita 71. gr. bara á það ákvæði, og láta það ekki stoppa á því að við viljum fá svo mörg önnur líka? Það var að skapast samstaða um það. Ég held að með það eitt og sér og breytingarákvæðið (Forseti hringir.) hefðum við getað gengið býsna sátt frá þessu verki.