141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:18]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það voru þau boð og það gekk út á að ekki væri meirihlutastuðningur fyrir því að beita þessu ákvæði þrátt fyrir að nánast allir þingmenn stjórnarflokkanna beggja, sem eru náttúrlega í minni hluta, væru tilbúnir til þess, það vantaði nokkra upp á. Vafi lék á um að hægt væri að ná samstöðu um auðlindaákvæðið eitt og sér og láta þá önnur bíða, sem sagt auðlindaákvæðið og breytingarákvæðið, þessi tvö. Ef við hefðum náð því, þrátt fyrir vonbrigðin yfir að heildarendurskoðunin kláraðist ekki núna, hefðum við tryggt að vinnan héldi áfram, að hægt yrði að breyta stjórnarskránni án mikilla vandkvæða, ná auðlindaákvæðinu fram, eins og ég sagði, sem naut svo mikils stuðnings og er mjög mörgum þingmönnum, ég ætla ekki að segja allra flokka en margra flokka, einkum hugleikið og hugstætt og er tilefni til pólitískrar baráttu og framboða út af fyrir sig, bara það ákvæði að ná því inn í stjórnarskrána að ævarandi eignarhald á öllum auðlindunum sé bundið í grunnlögin okkar.

Ég held að sé alveg á hreinu að ekki var hægt að ná 32 manna samstöðu um þetta eitt og sér, auðlindaákvæðið og 71. gr. Ég held að enginn hafi hrakið það. Og þó að þingmennirnir tveir úr Hreyfingunni bætist við 26 eða 27 manna hóp stjórnarliða er það ekki nóg, ef ég skil það rétt. Nú sat ég ekki þessa fundi og er auðvitað að hlusta eftir því sem kom fram. Það var svo sannarlega reynt að ná meiri hluta utan um þetta. Tveir af þremur þingmönnum Hreyfingar, ef ég skil rétt, voru til í það. Þá spyr ég: Voru þingmennirnir til í það eitt og sér og láta þá ekki önnur ákvæði þvælast fyrir þeirri samstöðu? Ég geri ekki lítið úr öðrum ákvæðum, þau eru öll jafnmikilvæg, en að ná samstöðu um þetta gríðarlega stóra atriði hefði verið mikill sigur fyrir okkur.