141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

nýjar samgöngustofnanir.

696. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir svokölluðu bandormsmáli. Um er að ræða frumvarp frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem er fylgifrumvarp við lög um Farsýsluna sem voru samþykkt fyrr á þessu þingi, þ.e. lög nr. 119/2012.

Fljótlega eftir að lögin voru samþykkt kom í ljós að ekki var fullkomin hamingja innan stofnana með nafnið Farsýslan á samgöngustofnun og var því ákveðið að beiðni starfsmanna stofnananna að fara í athugun á því hvaða nafn mundi njóta mests stuðnings meðal starfsmanna. Nú hefur sú könnun farið fram og nafnið Samgöngustofa varð ofan á og frumvarpið er því flutt sem nokkurs konar bandormur til þess að bregðast við þannig að nöfn á stofnunum séu rétt í viðeigandi lagafrumvörpum eins og fram kemur í frumvarpinu.

Hér er um að ræða bandormsbreytingar á allnokkrum lögum. Ég ætla ekki að tíunda þau í smáatriðum. Hér er reyndar fyrst og fremst um nokkurs konar formsatriði að ræða. Í lok frumvarpsins er einnig gert ráð fyrir tveimur reglugerðarheimildum, annars vegar að ráðherra verði gert heimilt að kveða nánar á um hlutverk og starfshætti stofnananna tveggja, þ.e. Vegagerðarinnar og Samgöngustofu, og hins vegar að ráðherra verði gert heimilt að setja reglugerð um starfsemi fagráða á starfssviðum stofnananna.

Frumvarpið skýrir sig að öðru leyti sjálft og er í rauninni fyrst og fremst flutt til þess að bregðast við áhuga starfsmanna stofnananna á að hafa nafn sem góð sátt er um á þessum stofnunum.

Ég mæli því með því, frú forseti, að þetta mál verði klárað fljótt og vel í þinginu þannig að orðið geti góð sátt um það og stofnanirnar fái farsæla og jákvæða byrjun þegar þær fara af stað.