141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 217/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn, sem fjallar um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun.

Það er rétt að geta þess að utanríkismálanefnd hefur áður fjallað um þessa tilskipun sem hér er um að ræða, þ.e. tilskipun um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun vöru. Það var gert í samræmi við 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Málið var þá komið til umfjöllunar í vinnuhópi EFTA um umhverfismál og utanríkismálanefnd Alþingis var gerð grein fyrir því í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu 14. október 2011. Á þeim tíma hlaut tilskipunin efnislega umfjöllun í atvinnuveganefnd Alþingis.

Þessi tilskipun kveður á um skyldur aðila sem markaðssetur vöru að láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun og orkunýtni vöru sem seld er eða leigð með það að markmiði að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti. Gildissvið þessarar tilskipunar er víðtækara en hinnar fyrri þar sem hún nær til allra orkutengdra vara, en ekki bara heimilistækja.

Við efnislega umfjöllun um málið gerði atvinnuveganefnd grein fyrir sjónarmiðum um íslenska hagsmuni og er rétt að geta þeirra hér, með leyfi forseta, en í umfjöllun hennar segir:

„Nefndin hefur farið yfir umsögnina sem barst vegna málsins og fengið á sinn fund Lárus Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu og Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins. Gestirnir bentu á að staða Íslands í orkumálum væri gjörólík stöðu flestra EES-ríkja þar sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa væri mun hærra hér á landi en gengur og gerist. Þannig væru t.d. 99,9% af raforkuþörf Íslendinga uppfyllt með raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og því hlutfalli næðu ríki ESB seint enda væri sambærilegt hlutfall að meðaltali rétt fyrir ofan 15% í þeim ríkjum. Þá kom fram að það sem væri líkt með Íslandi og ríkjum ESB væri hlutfall orkugjafa í samgöngum en tilskipuninni væri ekki ætlað að taka til þeirra. Var það mat umsagnaraðilanna að í þessu ljósi mætti ætla að efni tilskipunarinnar hefði takmarkað gildi á Íslandi. Þó var á það bent að þegar sérstöðu Íslands í orkumálum sleppti stæði það markmið tilskipunarinnar eftir að upplýsa neytendur um orkunotkun vöru og að samræmdar upplýsingar kynnu að aðstoða neytendur við að taka upplýsta ákvörðun um kaup á vörum. Töldu gestirnir ekki ástæðu til annars en að tilskipunin yrði tekin upp í EES-samninginn. Þó lögðu þeir ríka áherslu á að upptaka og innleiðing tilskipunarinnar í íslenskan rétt yrði gerð með eins einföldum hætti og hægt væri með það að leiðarljósi að kostnaði sem við það félli á fyrirtæki yrði haldið í lágmarki. Bentu þeir loks á að ef gera ætti kröfur um að merkimiðar á vörur yrðu á íslensku kynni að vera heppilegt að stjórnvöld sæju til þess að íslensk útgáfa merkimiða yrði öllum söluaðilum aðgengileg.“

Þetta var tilvitnun í umsögn frá atvinnuveganefnd þegar málið var þar til umfjöllunar.

Meiri hluti utanríkismálanefndar tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í áliti atvinnuveganefndar og mælist til þess að horft verði til þeirra við undirbúning lagafrumvarps til innleiðingar tilskipunarinnar, en það er einmitt gert ráð fyrir því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra leggi fram frumvarp um breytingu á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., til að innleiða ákvæði þessarar tilskipunar í íslenskan rétt.

Gert er ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar muni hafa í för með sér stjórnsýslulegar og efnahagslegar afleiðingar með því að væntanlega þarf að auka eftirlitsheimildir Neytendastofu og tryggja nægjanlegan mannafla til að sinna því eftirliti.

Meiri hluti utanríkismálanefndar leggur til að þessi tillaga verði samþykkt og vísa ég að öðru leyti til nefndarálits meiri hlutans á þskj. 1186, sem ég hef hér gert grein fyrir.