141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 217/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

Eins og fram kom í máli hv. formanns utanríkismálanefndar hefur þetta mál áður komið til umfjöllunar á Alþingi og ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að lesa þá tilvitnun í umsögn atvinnuveganefndar sem síðasti hv. ræðumaður las upp. Ég vil hins vegar vekja athygli á ástæðu þess að við höfum breytt verklagi varðandi meðferð EES-mála. Það gerðist ekki af sjálfu sér heldur gerðist það í góðri sátt allra flokka og þar var tekið mið af þeirri gagnrýni sem hér hefur oft verið rædd á vettvangi Alþingis að við höfum ekki nýtt þau tæki sem Alþingi hefur til að hafa áhrif, og við Íslendingar, á EES-samninginn og þær gerðir sem þar fara inn á því stigi máls þegar við höfum sannarlega tæki og tækifæri til að hafa áhrif á innleiðinguna.

Ég vil nefna það og rifja upp að það var árið 2008 sem þáverandi utanríkismálanefnd var búin að skoða þinglega meðferð EES-mála. Í því nefndaráliti sem ég mæli hér fyrir er vitnað í skýrslu utanríkismálanefndar um þinglega meðferð þessara mála en þar kom meðal annars fram að fjölmargar ESB-gerðir, tilskipanir og reglugerðir hefðu verið teknar inn í EES-samninginn án þess að tryggt hefði verið að Alþingi væri fyrir fram upplýst um tilvist þeirra. Hlutverk Alþingis í framkvæmd EES-samningsins hefði minnkað með árunum og í ákveðnum tilvikum hefði afgreiðsla EES-mála á Alþingi nánast orðið að formsatriði.

Ein af niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis um innleiðingu EES-gerða var að ekki hefði verið lögð nægileg áhersla á að meta hvort ástæða þætti til aðlögunar á reglunum fyrir Ísland eða hvort tilefni væri til og heimildir væru innan regluverks ESB til að taka mið af þeim aðstæðum á Íslandi sem væru sérstakar og á annan veg en í nágrannalöndunum, samanber 5. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bls. 38.

Einmitt með þetta að markmiði og til að gera Alþingi kleift að fylgjast betur með undirbúningi EES-mála og skýra meðferð þeirra á Alþingi, auk þess að skapa festu um afgreiðslu þessara mála, var nýjum ákvæðum bætt við lögin um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 24. gr., með leyfi forseta:

„Skylt er ráðherra að veita utanríkismálanefnd upplýsingar og hafa samráð við hana um mál sem varða Evrópska efnahagssvæðið (EES-mál) í samræmi við reglur sem forsætisnefnd setur.“

Í 5. málslið 1. mgr. 37. gr.. segir, með leyfi forseta:

„Forseti setur enn fremur reglur um frágang lagafrumvarpa sem innleiða reglur er byggjast á ESB-gerðum (EES-mál).“

Í 7. mgr. 45. gr. segir, með leyfi forseta:

„Stjórnskipulegum fyrirvara skv. 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ber að aflétta með þingsályktun og skal haga framsetningu hennar í samræmi við reglur sem forseti setur.“

Ein af aðalástæðunum fyrir þessum breytingum var að veita nýjum reglum um þinglega meðferð EES-mála lagastoð í þingsköpum. Þar er meðal annars átt við 2. gr. framangreindra reglna um meðferð ESB-gerða sem háðar eru samþykki Alþingis. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þegar fulltrúi ráðuneytis fær til meðferðar í vinnuhópi EFTA ESB-gerð sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en ekki mun taka gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis skal senda utanríkismálanefnd gerðina í heild sinni. Heimilt skal að senda óþýddan frumtexta. Með gerðinni skal fylgja upplýsingablað ráðuneytisins (svokallað EES-eyðublað) ásamt staðalskjali. Ef ráðuneyti hyggst óska eftir efnislegri aðlögun, svo sem um undanþágur, sérlausnir eða frest á gildistöku, skal nefndin upplýst um slíkt.

Ef utanríkismálanefnd telur að ESB-gerð þarfnist efnislegrar aðlögunar, þó að ekki hafi verið gert ráð fyrir slíku af hálfu ráðuneytis, skal hún boða fulltrúa utanríkisráðuneytis og viðkomandi fagráðuneytis á samráðsfund um málið. Umfjöllun utanríkismálanefndar skal miðuð við að ráðuneytið geti unnið úr ábendingum hennar í tæka tíð fyrir lok tilskilins frests á sendingu staðalskjals málsins til EFTA-skrifstofunnar. Að jafnaði skal því miða við að samráðsferli hverrar gerðar skuli lokið innan tveggja vikna frá því að gerðin ásamt fylgigögnum barst utanríkismálanefnd, samanber 1. mgr.“

Það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að hv. atvinnuveganefnd fékk málið til umfjöllunar á fyrri stigum og skilaði umsögn en skemmst er frá því að segja að hvorki utanríkisráðuneytið né iðnaðarráðuneytið virðast hafa tekið tillit til þeirra athugasemda sem hv. þingmaður las upp og komu fram í vinnu nefndarinnar. Það verður því að teljast óheppilegt að ekki hafi komið fram haldbærar skýringar á þeirri stöðu.

Það er ljóst að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, en það ráðuneyti ber ábyrgð á efnislegri greiningu gerðarinnar hvað Ísland varðar í tengslum við upptöku hennar í EES-samninginn og innleiðingu hér á landi, hefur ekki unnið úr ábendingum nefndarinnar, eins og ætlunin var að gert yrði, samanber þær reglur sem ég rakti áðan. Minni hlutinn átelur þessi vinnubrögð.

Í þessu sambandi kýs minni hlutinn einnig að benda á tillögu til þingsályktunar um undirbúning lagasetningar, sem lögð var fram á Alþingi af forsætisráðherra 30. nóvember 2012 og skýrslu forsætisráðherra um vandaða lagasetningu, áhrif laga um opinberar eftirlitsreglur og störf ráðgjafarnefndar 2006–2011 þar sem sjónarmið um vinnubrögð eru sett fram, sem virðast heldur ekki hafa verið höfð til hliðsjónar við vinnslu þessa máls.

Með tillögunni sem við ræðum hér er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta upptöku tilskipunar ESB um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum. Markmið tilskipunarinnar er að upplýsa neytendur um orkunotkun vöru, og að samræmdar upplýsingar kunni að aðstoða neytendur við að taka upplýsta ákvörðun um kaup á vörum. Það eru í sjálfu sér góð markmið og minni hlutinn telur ekki ástæðu til annars en að tilskipunin verði tekin upp í EES-samninginn.

Innleiðingin kallar á lagabreytingar hér á landi og við umfjöllun nefndarinnar kom fram ósk um að nefndinni bærust til kynningar drög að frumvarpi til innleiðingar málsins. Ekki var orðið við þeirri ósk. Minni hlutinn átelur þessi vinnubrögð þar sem ljóst má vera að frumvarpið verði lagt fyrir komandi þing og ætti því að vera tilbúið í öllum meginatriðum. Lengi hefur legið fyrir að þetta mál þurfi að innleiða í íslenska löggjöf.

Sökum þessa hefur nefndin ekki getað kynnt sér hvernig ætlunin sé að innleiða einstök efnisatriði tilskipunarinnar en talið er að innleiðing hennar muni hafa í för með sér stjórnsýslulegar og efnahagslegar afleiðingar þegar auka þarf eftirlitsheimildir Neytendastofu og tryggja nægilegan mannafla til að sinna eftirlitinu.

Minni hlutinn bendir á að mikilvægt er að vanda til verka við undirbúning lagasetningar og bendir á að kostnaður getur einnig fallið á fyrirtæki við innleiðingu tilskipunarinnar. Hins vegar má ætla að efni tilskipunarinnar hafi takmarkað gildi á Íslandi. Ástæðurnar eru einkum þær að hér á landi er umhverfisvæn og sjálfbær orka notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti. Staða Íslands í orkumálum er því gjörólík stöðu flestra EES-ríkja þar sem hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa er mun hærra hér á landi en gengur og gerist. Komið hefur fram að 99,9% af raforkuþörf Íslendinga er uppfyllt með raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum en sambærilegt hlutfall er að meðaltali rétt fyrir ofan 15% í ríkjum Evrópusambandsins.

Þarna erum við kannski komin að kjarna málsins. Hér er verið að innleiða tilskipun sem hefur góð og gild markmið en við glímum ekki við sömu stöðu í orkumálum og menn gera á meginlandi Evrópu. Hér framleiðum við umhverfisvæna, endurnýtanlega orku. Það er allt í góðu að upplýsa menn um að fara vel með orkuna, en að ekki sé tekið mark á athugasemdum nefnda Alþingis í þessu vinnuferli til að koma sérstöðu Íslands á framfæri þegar við höfum tækifæri til þess að hafa áhrif — það átelur minni hluti utanríkismálanefndar, það eru þau vinnubrögð sem við gagnrýnum vegna þess að við leggjum ríka áherslu á að tekið sé tillit til hagsmuna Íslands.

Upptaka tilskipunarinnar í EES-samninginn og innleiðingin í íslenskan rétt verður að gera með eins einföldum hætti og hægt er og með það að leiðarljósi að kostnaði hins opinbera og þeim sem fellur á fyrirtækin í landinu verði haldið í lágmarki.

Minni hlutinn telur óásættanlegt að kvaðir séu lagðar á íslensk fyrirtæki með tilheyrandi kostnaði til að uppfylla kröfur sem í raun varða ekki þá stöðu sem Ísland er í. Minni hlutinn leggur til að tíma og forgangsverkefnum verði betur skipað í stað þess að bera mál á borð fyrir þingið sem eru svo lítið eða illa unnin og átelur að ekki sé tekið mark á þeirri vinnu sem þingið hefur áður innt af hendi.

Minni hlutinn gerir kröfur um að það ráðuneyti sem ber ábyrgð á efnislegri greiningu gerðar hvað Ísland varðar í tengslum við upptöku hennar í EES-samninginn og innleiðingu hér á landi vinni úr ábendingum utanríkismálanefndar og annarra fastanefnda Alþingis eftir atvikum, eins og ætlunin var að yrði gert eins og ég hef rakið í minni ræðu, samanber ákvæði laga og reglur um þinglega meðferð EES-mála.

Minni hlutinn leggur því til að tillagan verði að svo stöddu ekki afgreidd, heldur verði vísað aftur til ráðuneytisins til efnislegrar meðferðar og að tillit verði tekið til þeirra athugasemda og umsagna sem bárust á fyrri stigum málsins vegna þess að þetta snertir sjálfstæði þingsins. Hér erum við að leggja okkur öll fram um að bæta vinnubrögð við upptöku gerða í EES-samninginn til að gæta hagsmuna Íslands og til að styrkja vald Alþingis. Það er algjörlega óásættanlegt að ekki sé farið eftir því og að sú vinna sé virt að vettugi af hálfu framkvæmdarvaldsins.

Því legg ég til, virðulegi forseti, að tillagan verði að svo stöddu ekki afgreidd en ég ítreka að í sjálfu sér eru markmiðin góð og minni hlutinn er fylgjandi því að á endanum verði þessi gerð tekin upp í EES-samninginn en þá með þeim hætti að ríkt tillit sé tekið til hagsmuna Íslands.