141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:26]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Um þessa hraksmánarlegu tillögu sagði Þorkell Helgason, helsti kosningasérfræðingur landsins, í pistli í dag að hér væri verið að binda hendur komandi kynslóða um ókomna tíð, um það að aldrei verði hægt að breyta stjórnarskrá Íslands. Þessi tillaga hefur ekki verið ígrunduð af þeim sem flytja hana, þeir vita í rauninni ekkert hvað þeir eru að gera.

Helstu kosningasérfræðingar heims hafa komið til Íslands og sagt: Þessi hámarksþröskuldur á í mesta lagi að vera 20% og aldrei hærri en 25%. Hér draga menn töluna 40% upp úr hatti í hrossaskaupum um stjórnarskrá, [Kliður í þingsal.] Landspítala og allan fjandann og ætla svo að reyna að komast frá því máli með sóma. Það er skammarlegt að hugsa til þess að þeir menn sem hafa helst grafið undan stjórnarskránni undanfarnar vikur og mánuði, hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall, skuli nú komnir með tillögu um að aldrei verði hægt að breyta stjórnarskrá landsins aftur. (Forseti hringir.) Það er ömurleg staða.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gæta hófs í orðavali.)