141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það eru mikil vonbrigði hvernig farið hefur fyrir hinni miklu og vönduðu vinnu sem svo fjölmargir, bæði lærðir og leikir, hafa lagt fram við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar allt þetta kjörtímabil. Ég er flutningsmaður að tveimur tillögum sem hér hafa verið dregnar til baka. Báðar miðuðu að nokkuð öðru en því sem hér liggur fyrir, annars vegar var um að ræða 25% þröskuld í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er það hæsta sem ég þekki til og margir aðrir reikna ég með, og hins vegar voru auðlindir í þjóðareign.

Markmið formannanna með frumvarpinu á þskj. 1139 og þingsályktunartillögu á þskj. 1140 var að teygja sig eins langt og mögulegt væri til móts við þá sem hér hafa brugðið fæti fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar á liðnu kjörtímabili. Það dugði ekki, því miður, það var slegið á útrétta hönd. Við horfum hér til niðurstöðu um annað sem er svo hár þröskuldur (Forseti hringir.) að ég get því miður ekki stutt þetta þó að ég viðurkenni að það geti verið eina leiðin til að halda þessu ferli áfram á næsta kjörtímabili.

Ég sit hjá.