141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Markmið þess frumvarps sem við erum að ræða um eru nokkuð sem er mikil sátt um meðal íslensku þjóðarinnar. Ég held að óhætt sé að segja að meginþorri Íslendinga, ef ekki allir, eru miklir náttúruunnendur og þykir vænt um sitt land. Mjög miður, virðulegi forseti, er að við sjáum þessa miklu óeiningu sem hefur komið fram sem verður að skrifast á þau vinnubrögð sem viðhöfð voru bæði við undirbúning og framsetningu málsins. Segja má að þó sé jákvætt að mjög mikið af fólki hefur bundist samtökum og unnið ötullega að því að gæta hagsmuna náttúrunnar og þjóðarinnar í þessu máli.

Eins og mun koma fram varðandi 3. umr. eru ákveðnar breytingartillögur sem gera að verkum að þó er sátt um að klára málið núna en þær breytingartillögur eru mjög margar, (Forseti hringir.) bæði góðar og slæmar. Því fer best á því hjá okkur sem erum ósátt við upplag þessarar vinnu að greiða ekki atkvæði um breytingartillögurnar og ég tel að flestir muni gera það.