141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[21:44]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegi forseti. Ég ætla að styðja þær breytingar sem verið er að bera upp við þetta ágæta frumvarp sem er að mörgu leyti mikið framfaraspor. Ég vil á sama tíma lýsa áhyggjum mínum af því að mér er kunnugt um að á síðustu klukkustundum og sólarhringum hafa staðið yfir miklar samningaviðræður um málið. Ég fór fram á skrifstofu þingsins rétt fyrir þessa atkvæðagreiðslu og óskaði upplýsinga um þær breytingartillögur sem á að bera upp við 3. afgreiðslu þessa máls. Þær liggja ekki fyrir þannig að ég geri ráð fyrir að maður fái tóm til þess að fara vel yfir þær og fjalla um þær hér í þingsal. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þingheimur ætli ekki að afgreiða breytingar á svo mikilsverðu máli á handahlaupum hérna á síðustu metrunum.