141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[21:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér eru greidd atkvæði um kísilver í landi Bakka, ívilnanir og uppbyggingu innviða vegna umræddrar atvinnustarfsemi. Um er að ræða verkefni sem býr yfir ýmsum kostum, tiltölulega mörg störf per megavatt og orkukost í nýtingarflokki rammaáætlunar.

Ég vil þó að við þetta tækifæri komi fram að ég tel óásættanlegt að ráðist verði í virkjun í Bjarnarflagi án þess að fram fari nýtt umhverfismat eins og raunar Umhverfisstofnun og Náttúruverndarsamtök Íslands hafa lagt til. Mývatn og lífríki þess eru í húfi. Loks er að mínu mati um að ræða of rífleg framlög úr ríkissjóði til að ég geti stutt þessi mál. Ég mun sitja hjá við bæði málin.