141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[21:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég vek athygli á því að ég var sú fyrsta sem sló hér í og ég er þingflokksformaður Hreyfingarinnar. Það er alveg makalaust hvernig þingforseti lætur eins og kjáni. [Kliður í þingsal.] Já, já, mér er alveg sama, þetta er ekki forseti minn og ég er búin að fá — já, það er dónaskapur, það er allt í lagi. Það sem er að gerast hér er dónaskapur. (Forseti hringir.) Það er dónaskapur að við séum að fá mál inn á þing sem er ekkert rætt. Við erum nýbúin að horfast í augu við þann (Forseti hringir.) veruleika sem átti sér stað með Lagarfljót og við ætlum að gera það sama við Mývatn í boði Vinstri grænu melónunnar. Það er skammarlegt.

Mér finnst skömm að því að sitja á þessu þingi með enn eitt málið sem er þess eðlis að umræða þarf að fara fram um það í samfélaginu og þið ætlið bara að keyra það í gegn til þess að hæstv. ráðherra geti fengið fleiri atkvæði.