141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[21:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í mörg ár höfum við rætt um atvinnuuppbyggingu í landi Bakka í Norðurþingi og við framsóknarmenn höfum allan þann tíma stutt einarðlega við bakið á þeim áformum. Við höfum líka á þessu kjörtímabili talað mikið um skort á atvinnuuppbyggingu almennt í íslensku samfélagi. Þess vegna er mikið fagnaðarefni að ganga til atkvæðagreiðslu um uppbyggingu kísilvers í landi Bakka við Húsavík sem mun skapa fjöldann allan af störfum í Þingeyjarsýslum og á Norðurlandi eystra.

Ég hef setið á Alþingi í 10 ár og þau mál hefur oft og iðulega borið á góma á Alþingi, þ.e. atvinnumál á því landsvæði. Við sjáum nú til lands, við sjáum vonandi til þeirra tíma þegar störfum fer að fjölga á því landsvæði sem hefur háð mikla varnarbaráttu á undangengnum árum. Það er með mikilli gleði sem ég segi já við frumvarpinu í síðustu ræðu minni á Alþingi (Forseti hringir.) og það er með mikilli gleði sem ég styð loksins ríkisstjórnina í þessu máli sem og þann málflutning sem við framsóknarmenn höfum haft uppi hér varðandi atvinnuuppbyggingu í landi Bakka við Húsavík.