141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[21:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er jákvætt að hæstv. ríkisstjórn hafi loksins áttað sig á því að til þess að efla fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu þarf að lækka skatta. Það er hins vegar verra að bara megi gera það á einu landsvæði, á Norðurlandi í kjördæmi hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Auðvitað skal gæta jafnræðis og að sjálfsögðu væri best að lækka skatta á öll fyrirtæki í landinu.

Það er hins vegar sjálfsögð krafa í ljósi þess að það stefnir í að frumvarpið verði samþykkt að ríkið veiti sambærilegan stuðning við atvinnuuppbyggingu og atvinnuverkefni annars staðar á landinu, til að mynda á Suðurnesjunum og nefni ég þar álverið í Helguvík sem dæmi. Yfirlýsingar einstakra ráðherra eða þingmanna um stuðning við það verkefni eru algjörlega marklausar á þessum tímapunkti, aðeins frumvarp sem hefði verið lagt fyrir þingið til samþykktar hefði dugað til þess að ríkisstjórnin gæti rekið af sér slyðruorðið (Forseti hringir.) og sýnt stuðning sinn við álverið í Helguvík í verki. Það gerði hún hins vegar ekki.