141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

633. mál
[22:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það mál sem við greiðum hér atkvæði um er síður en svo að detta af himnum ofan. Síðan ljóst varð að ekki yrði byggt stórt álver í landi Bakka hjá Húsavík fór þessi ríkisstjórn á fullt með sveitarfélögunum fyrir norðan í að vinna að því að hefja atvinnuuppbyggingu byggða á orkuöfluninni sem þar var að fara af stað.

Við erum að sjá árangurinn hér, ljóst er að af þessu verður. Það er gott fyrir Ísland allt, en það er líka gott fyrir þetta svæði. Það er ekki góð þróun í atvinnuuppbyggingu að landið er að sporðreisast og mikilvægt er fyrir okkur öll að styðja við atvinnuuppbyggingu víðar um land en eingöngu hér á suðvesturhorninu.

Virðulegi forseti, þess vegna styð ég þetta mál af heilum hug. Mikilvægt er að koma með stuðning til uppbyggingar innviða vegna þess að þarna er verið að brjóta og nema nýtt land til iðnaðaruppbyggingar. Þess vegna er þetta gert með þessum hætti og mikilvægt að styðja vel við það. Þetta er (Forseti hringir.) fagnaðardagur og það gleður mig mjög sem fyrrverandi iðnaðarráðherra, sem vann lengi að þessu verkefni með norðanmönnum, að sjá þennan dag renna upp þar sem við fáum að greiða með þessu atkvæði.