141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:16]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tel að við séum hér að stíga gríðarlega mikilvægt skref í áttina að betri heilbrigðisþjónustu sem að vísu hefur verið gríðarlega góð hér á Íslandi en þarf að festa í sessi. Það hefur legið fyrir í nokkuð langan tíma að fara þurfi í endurnýjun á húsnæði fyrir flaggskip okkar í heilbrigðisþjónustu, flaggskip sem þjónustar alla, allt landið, bæði landsbyggð og höfuðborg. Ég fagna því að við náum þeim áfanga hér.

Það hefur komið fram að þetta gagnast fyrst og fremst þeim sem þurfa að nota þjónustuna en ekki síður starfsfólkinu. Þetta eykur öryggi og gefur okkur tækifæri til þess að sinna betur tækninýjungum í þeirri heilbrigðisþjónustu sem veitt er. Þetta kemur til viðbótar við það að okkur hefur tekist að setja meira fjármagn til tækjakaupa til þessarar mikilvægu stofnunar okkar. Ég fagna því að við séum að stíga þetta stóra skref í dag.