141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er mikið að gerast, loksins. Ég fagna því sannarlega vegna þess að ekki má lengur dragast að hefja uppbyggingu nýs Landspítala. Það er dýrt að vera fátækur. Menn tala um að þetta kosti 30, 40 milljarða, en á hverju ári sem við gerum ekki neitt borgum við 3 milljarða í reksturinn að óþörfu. (Gripið fram í.) Það hefur verið óvenju góð og breið samstaða um þetta stóra mál enda brýn þörf á að byggja nýjan spítala. Það þarf að hagræða í rekstrinum. Það þarf að vera húsakostur til þess. Ég minni á að á þessu ári er tæplega milljarður settur í tækjakaup á Landspítalanum. Með þessu móti getum við gert góðan spítala betri fyrir veikustu sjúklingana alls staðar að af landinu, fyrir flóknustu aðgerðirnar, fyrir meira en 100 þús. sjúklinga á ári, fyrir 5 þús. starfsmenn, fyrir fleiri hundruð nema á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu, fyrir fólkið í landinu. Þetta er gott mál. Ég styð það og fagna því að við skulum fá tækifæri til að ýta þessu úr vör.