141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Atkvæðaskýringarnar sem hér hafa verið eru kannski birtingarmynd þess sem hefur verið í umræðunni um nýjan Landspítala. Hér koma hv. stjórnarliðar upp og fagna því að nú eigi að byggja nýjan spítala. Því miður erum við ekki komin á þann stað. Það er skynsamlegt að byggja nýjan spítala vegna þess að það er hagkvæmt og líka nauðsynlegt. Það hefur hins vegar algjörlega vantað pólitíska forustu í þetta mál á kjörtímabilinu. Hér er svo sannarlega verið að stíga eitt skref, virðulegi forseti, (Gripið fram í: Hænufet.) hænufet, en við skulum ekki fara að fagna neitt. Því miður hafa þessi ár, þetta kjörtímabil, hvað þetta mál varðar verið fullkomlega glataður tími. Því miður. Ég hvet því þá sem virkilega vilja sjá nýjan Landspítala að tala ekki með þessum hætti (Forseti hringir.) og fagna því að hér sé verið að fara að byggja nýjan spítala, því það er einfaldlega ekki rétt. Því miður. En ég styð þetta mál, virðulegi forseti.