141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[22:35]
Horfa

Jón Bjarnason (U):

Frú forseti. Þótt ég styðji þetta mál við lokaatkvæðagreiðslu vil ég samt gera sterkan fyrirvara við þær breytingar sem hér er verið að gera á stöðu landbúnaðarháskólanna og landbúnaðarmenntunar í landinu. Það hefur verið afar farsælt á undanförnum áratugum að hafa nána tengingu og samstarf á milli landbúnaðarfræðslunnar og atvinnugreinarinnar. Það var tryggt í búfræðslulögum. Núna er verið að slíta þau tengsl sem þarna voru bundin.

Frú forseti. Ég tel það mjög óheppilegt og óskynsamlegt og sýnir kannski ákveðna firringu frá þeim sem flytja þetta mál gagnvart starfsmenntun og tengingu við atvinnulífið í landinu. (Gripið fram í: Rétt.) Landbúnaðarháskólarnir á Hólum og á Hvanneyri hafa einmitt haft mikla tengingu við atvinnugreinina.

Frú forseti. Ég bendi á hversu varasamt þetta er og vara við því, en treysti því samt við samþykkt þessara nýju laga að menn finni leið til að halda þessum góðu tengslum. Ég styð málið eins og ég hef áður sagt, frú forseti.