141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[22:56]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég styð að sjálfsögðu þetta mál. Það eru vissulega vonbrigði hversu torsótt hefur orðið að tryggja lánsveðshópnum sambærilega úrlausn og til dæmis aðrir fengu á grundvelli samkomulags í desember 2010 um svokallaða 110%-leið. Við horfumst í augu við að orðið hefur dráttur á því og frumvarpið er til þess að mæta þessum hópi og koma til móts við þyngri greiðslubyrði sem hann hefur haft, borið saman við aðra sem gátu nýtt sér þau úrræði sem í boði voru.

Það hefur enginn haldið því fram að hér sé varanleg lausn á ferðum, en ég verð að segja alveg eins og er að ég er forundrandi að sjá það fólk sem hæst talar þessa dagana og vikurnar um umhyggju sína fyrir skuldugu fólki geta ekki stutt það að lánsveðshópurinn fái 500 millj. kr. til að mæta þyngri greiðslubyrði sinni undanfarin missiri. Ég skil ekki að fólk skuli vera uppi með tvískinnung af því tagi (Gripið fram í.) að það slái eign sinn á það að bera eitt hina einu sönnu umhyggju fyrir skuldugum fjölskyldum í landinu en getur ekki (Forseti hringir.) stutt að þessi hópur, sem sannanlega hefur setið eftir, verði studdur með 500 millj. kr. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)