141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[22:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í umræðunni um þetta mál fagna ég því að hér sé reynt að koma til móts við þennan hóp, en auðvitað eru það vonbrigði að ekki hafi náðst að klára að koma með úrræði til handa þeim sem eru í þessari stöðu varðandi lánsveðin.

Mig langar að vekja athygli á því að við sjálfstæðismenn höfum reynt eftir bestu getu að fylgja þeirri stefnu okkar á kjörtímabilinu að vinna að góðum málum er varða lausn á skuldavanda heimilanna í samstarfi við aðra flokka. Við höfum lagt okkur fram um það, enda höfum við alltaf sagt að lausn á skuldavanda heimilanna fæst með því að við setjumst saman yfir vandamálið. Við höfum kjark til að styðja mál sem koma til móts við heimilin þrátt fyrir að þau stafi ekki frá okkar flokki og okkar flokksmönnum. Mig langaði til að vekja athygli á því í þessu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)