141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

virðisaukaskattur.

639. mál
[23:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þó að hér sé fyrst og fremst verið að leggja til þrengri tímamörk varðandi skil á virðisaukaskattsskýrslum vil ég hvetja þingheim og þá sem munu taka hér sæti að loknum kosningum að taka einmitt höndum saman um að fara í heildarendurskoðun á virðisaukaskattskerfinu. Það er löngu tímabært. Nauðsynlegt er að fara í einföldun á kerfinu og tryggja skilvirkni þess. Þetta er okkar helsta tekjuöflunarkerfi hjá ríkinu. Það hefur aldrei farið fram heildarendurskoðun á kerfinu. Það er orðið allt of flókið og erfitt að starfa í því. Við getum því ekki bara verið að þrengja varðandi skil eða hugsanlega auka refsiákvæði varðandi skattskilin, heldur verðum við að tryggja það að auðvelt sé að vinna innan kerfisins, að það sé ekki svo flókið að menn geti hugsanlega lent í því að svíkja óviljandi undan skatti.