141. löggjafarþing — 113. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[23:41]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér voru kynntar breytingartillögur frá þeim hv. þingmönnum Merði Árnasyni og Ólafi Þór Gunnarssyni við frumvarpið sem dreift var á milli umræðna. Ég hef ekki haft tök á því að fara yfir þær efnisbreytingar sem verið er að gera til dæmis á utanvegaakstri. Mig langar því að spyrja hv. framsögumann, Mörð Árnason, frá hvaða tíma að staðaldri fjölfarnir, greinilegir vegslóðar hafa verið notaðir, hvað er miðað við í þeim efnum, hvaða skilgreining liggur þar að baki? Hvaða skilgreining liggur að baki því að aka megi fáfarnari vegslóða þar sem hefð er fyrir akstri? Til hvers vísar sú hefð? Er það einu sinni á ári eða einu sinni á fimm ára fresti?

Hér er verið að opna á mjög frjálsa túlkun að mínu mati á veigamiklu atriði sem varðar umgengni við náttúru Íslands. Mér finnst það ekki til eftirbreytni að kynna slíkar efnisbreytingar á lokastigum málsins sem nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd hafa engin færi haft á að spyrja út úr, fá sérfræðinga á fund nefndarinnar, fá nákvæma skilgreiningu á því hvað í þessu felst.

Ég verð að viðurkenna að miðað við þá útgáfu af þeirri breytingu sem mér var sýnd í dag þá er um mikla bragarbót að ræða, en ég er samt sem áður mjög óánægður með þá leið sem hér er farin. Ég velti fyrir mér, til móts við hvaða sjónarmið er hv. þingmaður að koma með þessum breytingum? Hverju er hann að mæta? Af hverju skiptir þetta máli?