141. löggjafarþing — 113. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[23:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að hv. þm. Róbert Marshall sé einn af þeim í salnum sem best þekkir lagarammann um utanvegaakstur og hefur auðvitað kynnt sér þetta mál ítarlega og veit þess vegna að ákvæðið um hina greinilegu slóða sem eknir eru að staðaldri eru úr frumvarpinu sjálfu og er ekki tilbúningur minn eða hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar. Sú skilgreining kom fram í kynningu málsins og í umfjöllun nefndarinnar og ég þarf ekki að endurtaka hana.

Til móts við hvaða sjónarmið er verið að koma? Það er ósköp einfaldlega verið að koma til móts við þau sjónarmið að ökumenn sem eru á þeim millitíma að aka slóða sem þeir hafa ekið áður, þeir þekkja, eru vanir að aka, sem eru slóðar sem er nokkurn veginn í lagi að aka út frá sjónarmiðum náttúruverndar, að þeir ökumenn fái að aka þá slóða. Það er ósköp einfaldlega það sjónarmið. Það sem við erum að reyna að gera er að skapa sem skýrust skil, þó að erfitt sé, á milli þeirra sem aka á slóðum sem eru í lagi, skulum við bara segja, og þeirra delinkventa, dóna og sóða sem eru í raunverulegum, subbulegum utanvegaakstri að skemma náttúruna eins og við höfum dæmi um.

Það eru þau sjónarmið sem við erum að reyna að koma til móts við og ég hygg að okkur hafi tekist það nokkuð bærilega. Það er rétt hjá hv. þingmanni að áður var í gangi svona losaralegri texti um þetta mál og ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að hafa lagst yfir hann með mér og gert hann betri, því að hann er alveg klárlega betri með tilvísuninni til 32. gr. þar sem lýst er þeim skilyrðum sem slóðar þurfa að uppfylla til þess að vera í lagi.