141. löggjafarþing — 113. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[23:49]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt í andsvörum við hv. þm. Mörð Árnason. Mér finnast vinnubrögðin ekki til fyrirmyndar og það kemur mér verulega á óvart að þetta skuli vera gert svona. Ég vara við samþykkt breytingartillagnanna. Ég held að með þeim sé verið að skapa mun meiri óvissu en nú ríkir um umgengni við vegslóða og náttúru Íslands. Ég harma að svona breyting skuli vera lögð fram á síðustu metrum ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar. Mér finnst sorglegt að horfa upp á það og ég skil ekki á móti hvaða sjónarmiðum er verið að fara. Ég átta mig ekki á því hvort með því sé búið að vinna stuðning Sjálfstæðisflokksins við frumvarpið, hvort leikurinn hafi verið til þess gerður, að menn hafi verið að reyna að vinna málið í einhverri aukinni sátt. Sú skýring hefur ekki komið fram, ég hef ekki heyrt hvort hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætla að styðja málið en þeir skýra kannski frá því á eftir.

Ég lýsi miklum áhyggjum af þeirri opnun sem mér finnst vera í málsgreininni og hvet menn til þess að endurskoða hug sinn og vinnubrögðin. Það er ekki boðlegt að koma með svo veigamiklar breytingar á jafnviðkvæmu ákvæði þegar jafnlítill tími er til stefnu. Það hefði verið lítið mál fyrir hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson og Mörð Árnason að boða til fundar til dæmis í umhverfis- og samgöngunefnd um málið í dag. Reyndar var boðað til fundar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd klukkan eitt í dag á nefndasviði en sá sem hér stendur var sá eini sem mætti. Þegar ég innti formann nefndarinnar eftir því hvort hann hygðist halda fund í nefndinni sagði hann að það yrði gert en ekki hefur orðið neitt af því.

Bókstaflega í skjóli nætur er verið að setja inn setningu, grein um akstur utan vega, þar sem segir að þrátt fyrir 1. mgr. 31. gr. sé heimilt að aka vélknúnum ökutækjum á greinilegum vegslóðum sem eru að staðaldri notaðir til umferðar vélknúinna ökutækja eða fáfarnari vegslóðum þar sem hefð er fyrir akstri og slóðarnir falla að skilyrðum 2. mgr. 32. gr. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Merði Árnasyni að það eru ágætis girðingar á því en það er mjög loðið og teygjanlegt hvenær það telst hefð fyrir því að aka tiltekinn vegslóða. Það skal enginn segja mér að menn muni ekki reyna eftir fremsta megni að teygja það og toga þegar til kastanna kemur.

Ég hélt satt best að segja að við værum frekar að færast í þá átt sem samfélag að herða reglurnar og frumvarpið er að vissu leyti skref í rétta átt með því að búa til sameiginlegan kortagrunn þannig að menn séu alveg með á hreinu hvað má og hvað má ekki og það sé ekki túlkunum háð. Eins og staðan er í dag og eins og staðan hefur verið undanfarin ár hafa menn einfaldlega verið í sjálfstæðri vegagerð á hálendi Íslands, í viðkvæmustu náttúru okkar, og búið til vegslóða eftir eigin ákvörðunum og geðþótta hverju sinni. Þeir hafa síðan einfaldlega sagt að vegna þess að þeir hafi ekið þarna nokkrum sinnum sé kominn mjög greinilegur vegslóði sem hefð sé fyrir að aka og þar skuli vera vegur. Nú er verið að lengja tímabilið sem er hægt að gera það. Fresta gerð kortagrunnsins og opna á möguleikana á mjög frjálslegum túlkunum um hvenær menn mega aka þar sem þeim dettur í hug af því að þar var slóði. Mér finnst það ekki glæsileg niðurstaða á fjögurra ára starfi Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í umhverfismálum á Íslandi, nema síður sé, þvert á móti.