141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[00:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mjög svo umdeilda mál en eins og allir vita sem hafa fylgst með þá hafa verið um það mjög harðar deilur, bæði hér innan þingsins og sömuleiðis í þjóðfélaginu. Deilurnar hófust strax og málið kom fram, mönnum þótti þetta vera einhliða nálgun á náttúruvernd og að verið væri að taka út stóran hóp náttúruverndarsinna og útivistarfólks. Ég held að orðaskipti hv. þingmanna Marðar Árnasonar og Róberts Marshalls sýni að betur hefði verið farið dýpra í málið. Ég held að þetta hafi verið ágæt staðfesting á því.

Engin ástæða er til að ganga þannig fram að við séum í slíkri óeiningu um málið, en ég fullyrði að allir Íslendingar eru sammála um markmið þess.

Virðulegi forseti. Sem betur fer hefur þó náðst samkomulag um að koma fram með breytingartillögur sem forða miklum skaða og gera það að verkum að tími vinnst til þess að laga þá fjölmörgu annmarka sem eru á frumvarpinu. Mjög lítið er tekið á þeim í breytingartillögunum. Fjöldinn allur af annmörkum er kominn fram bæði í umræðum hér í þinginu og sömuleiðis í opinberri umræðu. Sem betur fer fá menn lengri tíma, fram til 1. apríl 2014, til þess að fara yfir þá. Alveg ljóst er að það á að vera eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar, hvernig sem hún er samsett, að setja vinnu af stað við að fara yfir þetta mál. Það er þess eðlis og ég held að orðaskipti hv. þingmanna sem fóru fram áðan hafi verið ein birtingarmynd þess en af mjög, mjög mörgu öðru er að taka. Mér mundi aldrei nýtast sá ræðutími sem er hér til þess að fara yfir það allt saman.

Hér var tekist á um svokallaðan kortagrunn og fyrir liggur að fram hefur komið mikil gagnrýni og tortryggni á hann af því útivistarfólki sem er á vélknúnum ökutækjum, það hefur haft mjög miklar áhyggjur af honum. Nú er það þannig, virðulegi forseti, að þeir Íslendingar eiga að sjálfsögðu rétt eins og aðrir, nema hvað. Við njótum hálendisins vegna þess að menn hafa farið á vélknúnum ökutækjum þar um um ansi langan tíma og ég fullyrði að það er vilji þess fólks, þó svo að eðli málsins samkvæmt séu alls staðar svartir sauðir, en það fólk sem nýtur landsins gerir það vegna þess að það vill njóta náttúrunnar en ekki skaða hana.

Hugmyndafræðin var að setja kortagrunn sem ég held að þurfi að fara betur yfir hvernig menn ætla að nálgast. Þar átti að setja inn alla slóða og það þýðir að ef menn setja til dæmis fáfarna slóða sem er svo sannarlega farið um þá verða þeir öllum kunnir. Það mun þýða meiri átroðning og ég mundi nú ætla að við séum sammála um að kannski sé enginn sérstök náttúruvernd í því. Á sama hátt þá er kortagrunnur mannanna verk og alveg ljóst er, og allir þeir sem þekkja til vita, að bæði verður deilt um það hvað séu slóðar og sömuleiðis verður seint gengið þannig fram að allir slóðar verði þarna inni. Ef aðili keyrir á slóðum sem hann hefur keyrt margoft áður en eru ekki inni í kortagrunni þá hefur viðkomandi einstaklingur verið að fremja glæp, ef frumvarpið hefði farið óbreytt í gegn.

Vilja menn ganga þannig fram? Vilja menn breyta í grundvallaratriðum hvernig þessir hlutir hafa verið? Þannig að allt það sem er ekki sérstaklega leyft sé bannað.

Virðulegi forseti. Sem betur fer erum við að koma í veg fyrir það slys, það fer út úr frumvarpinu og ef einhver ríkisstjórn vill fara með slíka fyrirætlun inn í frumvarpið, inn í lög, þá þarf að flytja sérstakt frumvarp um það. Sem betur fer, virðulegi forseti, þannig að þessar breytingartillögur eru án nokkurs vafa til bóta.