141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[00:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að óska íbúum í Þingeyjarsýslum og á öllu Norðurlandi til hamingju með að nú sjáum við loksins fyrir endann á máli sem hófst í rauninni fyrir einhverjum áratugum síðan. Þó má segja að upphafspunkturinn hafi verið árið 1998 er samstarf hófst á milli Þingeyinga og Eyfirðinga með stofnun Þeistareykja ehf. Margt hefur verið sagt um þetta mál, margt afar ósanngjarnt lagt til, m.a. var verkefnið tafið um tvö ár þegar ákveðið var að setja framkvæmdir vegna Bakka í svokallað sameiginlegt mat. Mikil samstaða hefur verið meðal heimamanna sem hafa mikla þekkingu á sínu nærumhverfi, tilfinningu fyrir náttúrunni og heimamenn hafa ávallt viljað nýta þá umhverfisvænu orku sem finnst heima í héraði til atvinnuuppbyggingar á svæðinu, svæði sem hefur verið kalt í atvinnulegu tilliti. Þess vegna er sú stund sem senn rennur upp þegar þetta frumvarp verður samþykkt stór, fyrir alla þá íbúa og þær fjölskyldur sem búa á norðausturhorni landsins.

Ég vil benda á að þetta er aðeins byrjunin. Tvö önnur verkefni eru í burðarliðnum. Það er ekki búið að ljúka viðræðum við Thorsil og stefnt er að því að viðræðum Norðurþings og Saint-Gobain verði haldið áfram á árinu 2013. Þetta eru gríðarlega stór verkefni sem geta skapað mörg störf og aukið hagvöxtinn í landinu öllu.

Virðulegi forseti. Ég held að vert sé að hrósa öllum þeim sem hafa aldrei gefið upp vonina, aldrei gefið upp trúna á verkefnið og unnið að því hörðum höndum að skapa atvinnu í Þingeyjarsýslum sem mun verða því svæði til framdráttar, styrkja allt Norðurland, ég tala nú ekki um eftir að Vaðlaheiðargöngin verða orðin að veruleika, einhver mikilvægasta samgönguframkvæmd landsins til að styrkja byggðarlög, stækka atvinnusvæði og auka umferðaröryggi, en yfir það hefur verið farið hér.

Ég þakka þeim sem lögðu hönd á plóg. Það er vert að hrósa þeim sem að þessu stóðu í ríkisstjórn Íslands þó að margir þeirra hafi dregið lappirnar lengi vel. En batnandi fólki er best að lifa. Fyrir það er vert að þakka.